146. löggjafarþing — 39. fundur,  6. mars 2017.

samgöngumál.

[15:28]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegi forseti. Eins og komið hefur verið hér inn á voru fjárlögin afgreidd í einhvers konar sátt í desember. Ýmsir hreyktu sér af þeirri sátt og töluðu um hvað hún hefði verið góð, þar á meðal bæði hæstv. núverandi forsætisráðherra og hæstv. núverandi fjármálaráðherra. Hluti af þeirri sátt var sameiginlegur skilningur um að þetta yrði tekið upp þegar ný ríkisstjórn tæki til starfa. Það er verið að hafa Alþingi að fífli með því að láta eins og sú sátt hafi bara snúist um að hér brostu allir í salnum. Mér finnst heldur lítið leggjast fyrir hv. þm. Birgi Ármannssyni að koma hér í föðurlegum tón og vanda um við aðra hvernig þeir eigi að hegða sér. En ég fagna ummælum hv. þingmanns um að koma þessum málum í góðan farveg og vil taka undir orð hv. þm. Svandísar Svavarsdóttur að minna á þá beiðni sem ég á inni um umræðu á hæstv. samgönguráðherra akkúrat um þessi mál og hlýt að líta svo á að hv. þm. Birgir Ármannsson hafi verið að lýsa yfir stuðningi við hana (Forseti hringir.) Og ég vil fara fram á það með sól í hjarta og sinni og mikilli ró að hæstv. forseti reyni að (Forseti hringir.) koma þeirri umræðu á fót eins fljótt og auðið verður.