146. löggjafarþing — 39. fundur,  6. mars 2017.

samgöngumál.

[15:30]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Frú forseti. Auðvitað hljótum við að eiga þessa umræðu að hluta til undir akkúrat þessum lið, um fundarstjórn forseta, vegna þess að þetta snýst jú um að hæstv. ráðherra hafi hunsað ákvarðanir sem teknar voru í þessum sal af Alþingi. Þess vegna þurfum við að biðla til hæstv. forseta um að hún standi með Alþingi í þessu máli. Það er jú hlutverk forseta. Þetta segi ég í mikilli ró.

Svo þurfum við auðvitað að eiga umræðu um samgöngumálin í stærra og víðara samhengi og vil þess vegna taka undir með þeim sem talað hafa um að sú sérstaka umræða sem hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé hefur beðið um að eiga við hæstv. ráðherra verði sett á dagskrá sem allra fyrst, og þá meina ég í rauninni í þessari viku, því að það eiga að vera nefndafundir í næstu viku (Forseti hringir.) og þetta er mál sem þolir enga bið. (Forseti hringir.) Það er ákall um það utan úr samfélaginu um að við ræðum þetta mál og það eigum við að gera.