146. löggjafarþing — 39. fundur,  6. mars 2017.

samgöngumál.

[15:38]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég vil halda aðeins áfram með umræðuna úr fjárlaganefnd í desember sem gekk, eins og við þekkjum, afskaplega hratt fyrir sig. Ég vil endilega hvetja núverandi ráðherra, félags- og jafnréttismálaráðherra og utanríkisráðherra, sem sátu í fjárlaganefnd á þeim tíma til þess að koma einhverju viti fyrir samgönguráðherra. Reyndar féllu þeir kannski á prófinu í upphafi vegna þess að í fjárlaganefnd, sem kom sér saman um örfá atriði og örfáa milljarða í þessar viðbótarframkvæmdir, var samdóma álit og niðurstaða fólksins í nefndinni að þegar ný ríkisstjórn tæki við völdum, hver svo sem hún yrði, þyrfti að taka upp fjárlögin því að ríkisstjórnin myndi setja mark sitt á þau. Það hefur þessi ríkisstjórn ekki kosið að gera. Ég velti því hér upp líka og bið fólk að hugsa um það nú þegar við fjöllum um ríkisfjármálastefnu: (Forseti hringir.) Hún nær ekki utan um þær framkvæmdir og annað slíkt sem fram undan eru í heilbrigðismálum, velferðarmálum, menntamálum og samgöngumálum.