146. löggjafarþing — 39. fundur,  6. mars 2017.

samgönguáætlun.

[15:41]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Óttarr Proppé) (Bf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Samgönguáætlun sem er í gildi var samþykkt við mjög sérstakar aðstæður, eins og hv. þingmaður veit. Hún var lögð fram skömmu fyrir kosningar. Það var vitað þegar hún var lögð fram að hún væri ekki í takti við gildandi fjármálaáætlun fyrri ríkisstjórnar. Ég sat sjálfur sem varamaður í umhverfis- og samgöngunefnd fundi þar sem við klóruðum okkur í höfðinu yfir þessu. Vissulega var ákveðin bjartsýni í huga okkar um að betur gengi svo hægt væri fjármagna samgönguáætlun. Það kom síðan í ljós í vinnu fjárlaganefndar fyrir jólin þegar verið var að samþykkja og vinna að fjárlögum fyrir árið í ár að það tókst að bæta örlítið í til þess að koma til móts við það sem á skorti í samgönguáætlun.

Ég get tekið undir að þetta er vandræðamál. Við vitum vel að innviðir hafa verið undirfjármagnaðir allt frá hruni. Það á ekki síst við í vegaframkvæmdum. Þess vegna skiptir það miklu máli að samstaða náðist, fyrst í umhverfis- og samgöngunefnd síðasta þings en aftur í fjárlaganefnd, um að leggja áherslu á að bæta í viðhald. Það var gert. Það þykir mér mjög mikilvægt. En það er síðan okkar hlutverk núna í undirbúningi fjármálaáætlunar fyrir næstu ár að bæta almennilega í fjármagn. Það finnst mér mikilvægt verkefni, en það er líka strembið verkefni (Forseti hringir.) vegna þess að það skortir á fleiri sviðum og við eigum í vandræðum með útgjöld í opinberum fjármálum á þenslutímum.