146. löggjafarþing — 39. fundur,  6. mars 2017.

samgönguáætlun.

[15:44]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Óttarr Proppé) (Bf):

Virðulegur forseti. Ég tel að vanfjármögnun í samgöngukerfinu bitni á öðru, það segir sig sjálft. Við höfum því miður séð fjölgun slysa, sérstaklega með mjög mikilli aukningu í ferðamennsku, aukinni umferð, sérstaklega á ákveðnum landsvæðum, og er það rakið beint til ástands vega, til einbreiðra brúa o.s.frv., þannig að okkur er mikið verkefni á höndum. Við þekkjum það líka í mínum málaflokkum þar sem er aukið álag á sjúkraflug og það er aukið álag á bráðamóttökur hjá heilbrigðisstofnunum hingað og þangað um landið. Ég hef sagt það áður í þessum stól að u.þ.b. tíundi hver sjúklingur á gjörgæsludeildum Landspítalans er ferðamaður eftir slys. (LE: En vinnubrögð ráðherra?) Þetta eru vandamálin.

Mér þykja vinnubrögð ráðherra vera (Forseti hringir.) í takt við þá stöðu sem við höfum verið í þar sem síðasta þing samþykkti samgönguáætlun sem var vanfjármögnuð (Forseti hringir.) og við þurfum að vinna úr þeim málum. Mér finnst mjög mikilvægt að ráðherra komi fyrir umhverfis- og samgöngunefnd og fagna því að búið sé að ákveða slíkt.