146. löggjafarþing — 39. fundur,  6. mars 2017.

aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum.

[15:46]
Horfa

Gunnar Hrafn Jónsson (P):

Frú forseti. Mig langar að beina fyrirspurn minni til hæstv. heilbrigðisráðherra. Þessari jómfrúrræðu minni á Alþingi seinkaði um nokkrar vikur vegna veikinda sem ég held að ég þurfi ekki að rekja frekar. Að gefnu tilefni vil ég því spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra hvenær þingheimur geti búist við að fá upplýsingar um aðgerðaáætlun stjórnvalda í geðheilbrigðismálum. Ég veit af eigin reynslu að í þeim málaflokki ríkir neyðarástand. Ég fullyrði að sjúklingum er í dag mismunað eftir því hvort þeir glíma við svokölluð líkamleg eða andleg veikindi og ástandið mun aðeins versna ef við höldum áfram á sömu braut.

Geðdeild er fjársvelt, meira að segja húsgögnin þar inni eru að liðast í sundur svo ekki sé minnst á sjúklingana. Eins og staðan er í dag getur geðdeild aðeins tekið við fólki í bráðri lífshættu. Þeir sem eru minna veikir þurfa að bíða þar til þeirra mál eru komin í óefni. Þá fyrst er hægt að gera eitthvað. Því má líkja við að taka ekki við sjúklingi með kransæðastíflu, segja honum að koma aftur þegar hann hefur hnigið niður úr hjartaáfalli. Þá fyrst er einhver aflögufær um að hnoða hann til lífs. Það er einfaldlega galin stefna sem kostar mannslíf.

Að meðaltali fellur allt að einn Íslendingur á viku fyrir eigin hendi, margfalt fleiri en deyja í umferðinni. Það liggur því á að fá svör frá hæstv. heilbrigðisráðherra um hversu mikið svigrúm við höfum til þess að bregðast við þessari alvarlegu stöðu strax á yfirstandandi þingi, bæði hvað varðar núverandi neyðarástand á geðdeild og forvarnir til að tryggja að það versni ekki enn frekar.