146. löggjafarþing — 39. fundur,  6. mars 2017.

Brexit, EFTA og hagsmunir íslands.

[16:01]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Hv. þingmaður rekur hér stefnu ríkisstjórnarinnar ágætlega eins og kemur fram í stjórnarsáttmálanum og vitnar í grein þar sem ég veit ekki hvort var farið alveg rétt með orð hv. þingmanns og formanns utanríkismálanefndar. Það sem ég veit hins vegar um þá grein er að hún var ekki nákvæm og ekki vel unnin þegar fjallað var um Ísland og samskipti okkar við Evrópusambandið og EES og annað slíkt.

Aðalatriði málsins er að við erum í góðri stöðu þegar kemur að samskiptum í Evrópu. Evrópusamstarfið hefur lengi verið mjög lagskipt. Við höfum Evrópusambandið, evruna, EFTA, EES. Sum ríki eru í NATO og önnur ekki. Við erum í þeirri stöðu að við erum með EES-samninginn sem veitir okkur góðan aðgang að markaði ESB. En auðvitað mun hann vega minna þegar eitt stærsta ríkið fer út og eitt okkar mikilvægasta viðskiptaland. Það er augljóst að okkar verkefni er að sjá til þess að við fáum ekki verri aðgang en við höfum núna að breska markaðnum þegar Bretar fara út úr Evrópusambandinu. Á sama hátt er auðvitað verkefni okkar að sjá til þess, við gerum það aðallega í gegnum EFTA, að við höfum aðgang að stóru mörkuðunum sem eru að verða til. Við höfum sem betur fer góðan aðgang t.d. að markaði í Kína. Bara til þess að setja málin í eitthvert samhengi þá er millistéttin í Kína núna orðin stærri og fjölmennari en allir íbúar Bandaríkjanna.

Svarið við spurningu hv. þingmanns, fyrrverandi hæstv. ráðherra, er einfaldlega, ef rétt er eftir haft í (Forseti hringir.) þessu viðtali, að þá er ég ekki sammála þeirri fullyrðingu en ég hefði hins vegar gaman af að ræða um tækifæri sem eru í (Forseti hringir.) milliríkjaviðskiptum Íslands í samskiptum við aðrar þjóðir.