146. löggjafarþing — 39. fundur,  6. mars 2017.

Brexit, EFTA og hagsmunir íslands.

[16:03]
Horfa

Lilja Alfreðsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir skýrt svar við fyrirspurn minni. Ég er búin að líta aftur á greinina og ég get ekki betur séð, ég er nú þokkaleg í ensku, að allt sé mjög skýrt sem kemur fram í þessari grein. Ég sé að hv. formaður utanríkismálanefndar hristir hér hausinn, en ég hef ekki tekið eftir því að hún hafi leiðrétt nokkuð í þessari grein eða komið fram með einhverja leiðréttingu þannig að ég held að það væri mjög æskilegt í framhaldinu af þessu, ef æðstu ráðamenn þjóðarinnar í utanríkismálum geta ekki komið máli sínu betur á framfæri en raun ber vitni, að þeir ættu kannski að leiðrétta það.

Þess vegna spyr ég hæstv. utanríkisráðherra hvort að það standi til að leiðrétta þau gerólíku sjónarmið sem koma fram í þessari grein í Washington Timesog hvort það væri ekki æskilegt gagnvart samstarfsaðilum okkar í EFTA.