146. löggjafarþing — 39. fundur,  6. mars 2017.

Brexit, EFTA og hagsmunir íslands.

[16:04]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Við sendum leiðréttingu út af þessari grein í títtnefnt blað vegna þess að það var margt sem var farið rangt með og m.a. hefur verið bent á að fyrirsögnin var ekki í samræmi við orðalag hv. þingmanns, en það er kannski ekki aðalatriðið í þessu. Það liggur alveg fyrir að Íslendingar starfa með öðrum EFTA-ríkjum að því sem snýr að útgöngu Breta úr ESB. Sömuleiðis af því að hv. þingmaður las hér upp úr stjórnarsáttmálanum þá höfum við fylgst mjög vel með því hvað er að gerast á vettvangi ESB. Ég hef heimsótt tvo fulltrúa í framkvæmdastjórninni sem fjalla um þessi mál því að staða Evrópusambandsins er ekki síður snúin og kannski snúnari en Breta ef út í það er farið. En við náum hins vegar ekki að ræða það á þeim fáu sekúndum sem hér eru. Ég held hins vegar að það væri æskilegt að við myndum ræða hér í þinginu um þessa stöðu og aðra sem snýr að alþjóðamálum.