146. löggjafarþing — 39. fundur,  6. mars 2017.

fsp. 5.

[16:11]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Óttarr Proppé) (Bf):

Virðulegi forseti. Ég vil meina að þessi mismunur komi ekki út frá einhverjum ákveðnum útboðum eða slíku heldur fyrst og fremst því hvernig haldið hefur verið utan um áætlunarvinnu og fjárlagavinnu í gegnum árin þegar kemur að þeim liðum sem hafa kannski verið, eigum við að segja áætlaðir en ekki fullkomlega fyrirséðir þegar kemur að magni.

Þau fjárlög sem voru samþykkt í haust voru samþykkt með mjög miklu hraði, eins og hv. þingmaður veit, og út frá föstum sem voru lagðir til grundvallar, sem ég vil meina að í þessu tilvikum hafi verið fullbjartsýnt áætlaðir. Það hefur verið siður hjá okkur í gegnum árin að þeir (Forseti hringir.) liðir sem hafa fylgt magni og verið aðeins óljósir, það hefur verið tilhneiging til þess að áætla naumt og gera svo upp í fjáraukalögum. (Forseti hringir.) Því verðum við að breyta með nýjum lögum um opinber fjármál og ég mun beita mér fyrir því.