146. löggjafarþing — 39. fundur,  6. mars 2017.

valfrjáls bókun við samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum (OPCAT).

169. mál
[16:16]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrirspurnina og ætla svo sem ekki að endurtaka allt sem hv. þingmaður rakti hér sem var allt satt og rétt og varðar aðdraganda þessa máls, þingsályktunartillögu nr. 8/145 sem samþykkt var í desember 2015 þar sem Alþingi fól ríkisstjórn að fullgilda fyrir Íslands hönd valfrjálsa bókun við samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum sem manna á meðal gengur undir nafninu OPCAT.

Það er rétt að nefna líka að Ísland hefur sætt gagnrýni á alþjóðavettvangi fyrir að hafa ekki fullgilt bókunina, m.a. á vettvangi nefndar Evrópuráðsins um varnir gegn pyndingum og nefndar Sameinuðu þjóðanna. Í allsherjarúttekt mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna á stöðu mannréttindamála á Íslandi sem fram fór á árinu 2011 fékk Ísland m.a. tilmæli sem lutu að því að ljúka þessu verki. Núna er að ljúka annarri allsherjarúttekt Sameinuðu þjóðanna gagnvart Íslandi. Í skýrslu sem stjórnvöld skiluðu vegna hennar kemur fram að það sé verið að vinna að fullgildingu þessarar bókunar. Íslensk stjórnvöld hafa líka samþykkt fjölda tilmæla sem fram komu í fyrirtöku mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna 1. nóvember sl. Við erum að fullgilda þá bókun.

Það er rétt að halda til haga að í þessari OPCAT-bókun er kveðið á um eftirlit sjálfstæðra aðila sem falið er að heimsækja reglulega stofnanir sem vista frelsissvipta einstaklinga í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að pyndingar og önnur grimmileg eða vanvirðandi meðferð viðgangist. Það er hins vegar alveg á forræði aðildarríkjanna að taka ákvörðun um fyrirkomulag hins innlenda eftirlits. Undirbúningur vegna innleiðinganna stendur yfir og hefur m.a. verið unnið að því að kortleggja þá staði sem eftirlitið mun lúta að. Þá er um það að ræða að þetta eru allt staðir sem vista frelsissvipta einstaklinga, jafnvel þótt vistunin vari einungis í skamman tíma. Þetta eru auðvitað einkum fangelsi, fangaklefar á lögreglustöðvum, deildir þar sem geðsjúkir eru vistaðir, heimili á vegum barnaverndaryfirvalda og deildir á hjúkrunarheimilum þar sem heilabilaðir eru vistaðir. Þessar stofnanir heyra bæði undir innanríkisráðuneytið og velferðarráðuneytið, sumar þeirra eingöngu undir annað þeirra. Þegar ég fór sjálf að kynna mér þessi mál varð mér auðvitað spurn hvort þetta eftirlit færi ekki þegar fram eðli málsins samkvæmt, t.d. hjá velferðarráðuneytinu, þegar um spítala er að ræða. Auðvitað fer landlæknir með ákveðið eftirlit. En það kom mér á óvart að landlæknir skuli t.d. ekki hafa að mér skilst eftirlit með öldrunarstofnunum, dvalarheimilum. Svo er a.m.k. ekki í þessu tilliti.

Stjórnvöld hafa rætt við aðila á vegum Sameinuðu þjóðanna vegna undirbúnings fullgildingarinnar en samráð, bæði við þá og innlenda hagsmunaaðila, mun fara fram á síðari stigum.

Það hefur verið eindregin tillaga innanríkisráðuneytisins að umboðsmanni Alþingis verði falið innlenda eftirlitið og hefur Alþingi fyrir sitt leyti fallist á það. Embætti umboðsmanns uppfyllir öll skilyrði sem kveðið er á um í bókuninni og nýtur almenns trausts í samfélaginu. Það verður því að telja embættið einstaklega vel til þess fallið að sinna þessu mikilvæga verkefni enda hefur sú leið verið farin víða í Evrópu og á öllum Norðurlöndunum. Er ekki annað að sjá en að það hafi reynst vel.

Hefur innanríkisráðuneytið unnið að þessum undirbúningi í samstarfi við umboðsmann, m.a. með því að kortleggja umfangið. Eftir stendur hins vegar að undirbúa nauðsynlegar breytingar á lögum um umboðsmann. Það er alveg óhjákvæmilegt.

Því miður tókst ekki að koma verkefninu fyrir á fjárlagalið innanríkisráðuneytisins fyrir árið 2017. Innanríkisráðuneytið vinnur núna að því að finna leiðir til að fjármagna verkefnið en vonir standa til þess að velferðarráðuneytið og Alþingi komi að því ásamt ráðuneytinu með einhverjum hætti. Það væri æskilegt að tryggja eitthvert fjármagn strax á þessu ári en fulla fjármögnun verkefnisins frá árinu 2018, hefja undirbúning verkefnisins hjá umboðsmanni Alþingis síðar á þessu ári og koma því fyrir á fjárlögum fyrir 2018. Með því móti væri í raun hægt að fullgilda bókunina í ár.

Hvað kostnaðarmatið varðar liggur það ekki endanlega fyrir. Það fer eftir endanlegu umfangi en fyrstu tillögur sem hafa verið lagðar á borðið sæta núna endurskoðun.