146. löggjafarþing — 39. fundur,  6. mars 2017.

valfrjáls bókun við samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum (OPCAT).

169. mál
[16:22]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Birgitta Jónsdóttir) (P):

Forseti. Ég þakka svörin. Það er ánægjulegt að þetta mál sé í einhverju ferli þó að þetta gerist í raun afar hægt. Það er mjög alvarlegt að ekki séu neinir fjármunir settir í þessa vinnu. Mér finnst það ótækt. Það var mjög vel reifað þegar við tókum þetta mál í gegnum þingið að til að hægt væri að framfylgja ákvörðun Alþingis þyrftu að fylgja peningar. Ég skora á þingheim, ríkisstjórnina og hæstv. ráðherra að beita sér fyrir því að settir verði peningar í þessa vinnu.

Mig langar jafnframt að skora á hæstv. ráðherra að tryggja að nýta sér þá viðamiklu þekkingu sem samtökin APT búa yfir og ég vona að þeirra víðtæka þekking verði nýtt.

Varðandi þetta málefni er mjög mikilvægt að við opnum málaflokkinn. Ég held að það væri mjög gagnlegt að hafa málþing eða opna fundi þar sem tryggð yrði þátttaka bæði erlendra og innlendra aðila sem kunna til verka og hafa faglega og jafnvel persónulega reynslu á þessu sviði til að við getum tryggt að svona mikilvægar samþykktir séu þess eðlis að allir sem starfa með eða eru aðstandendur fólks í þessum málaflokki séu meðvitaðir um réttindi frelsissviptra einstaklinga. Þeim aðilum sem eru frelsissviptir í heilbrigðiskerfinu fjölgar t.d. stöðugt. Það kemur verulega á óvart að ekki hafi verið (Forseti hringir.) neitt eftirlit með heilabiluðum einstaklingum og aðbúnaði þeirra.