146. löggjafarþing — 39. fundur,  6. mars 2017.

jafnt búsetuform barna sem búa á tveimur heimilum.

183. mál
[16:30]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina um þetta mikilvæga mál sem ég held að langflestir séu sammála um að sé brýnt, ekki bara í umræðunni heldur er brýnt að taka til hendinni í þessum málaflokki.

Í framhaldi af nefndri skýrslu ráðherra um jafnt búsetuform barna sem búa á tveimur heimilum, sem lögð var fram á Alþingi í september 2015, skipaði ráðherra verkefnisstjórn þriggja ráðuneyta, þ.e. innanríkis-, velferðar- og fjármála- og efnahagsráðuneytis. Í þeim starfshópi var einnig fulltrúi frá Þjóðskrá Íslands. Hlutverk þessarar verkefnisstjórnar var að útbúa nákvæma greiningu á því hvaða ákvæðum laga og reglugerða sé nauðsynlegt að breyta svo hægt sé að útbúa frumvarp og lögfesta ákvæði í barnalögum sem heimila foreldrum, sem fara með sameiginlega forsjá barns og hafa ákveðið að ala það upp saman á tveimur heimilum, að skipta búsetu barns að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.

Við upphaf vinnu verkefnisstjórnar var ljóst að ekki þyrfti einungis að breyta ákvæðum laga og reglugerða heldur þyrfti einnig að gera tilteknar kerfisbreytingar. Var talið mikilvægt að upplýsa fleiri aðila sem málið snertir um verkefnið, ásamt því að kalla eftir ábendingum frá þeim og áliti. Verkefnisstjórnin gerði einmitt það. Hún kallaði eftir tengiliðum frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu, ríkisskattstjóra, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Sjúkratryggingum Íslands, Tryggingastofnun og Barnaverndarstofu. Af þessari upptalningu má greina hversu ótrúlega flókið það er í raun að ná fram því sem okkur finnast alveg sjálfsögð réttindi barna, að vera tilgreind á heimilum beggja foreldra sinna, einkum og sér í lagi ef foreldrarnir eru sammála um það.

Fyrirhugað er að vinnu verkefnisstjórnarinnar ljúki í mars næstkomandi. Næsta skref yrði þá að hefja vinnu við að útbúa lagafrumvarp til breytinga á barnalögum ásamt bandormi með breytingum á ýmsum öðrum lögum. Jafnframt þyrfti að gera breytingar á tilteknum reglugerðum. Lagt verður upp með að slík vinna verði í höndum nokkurra ráðuneyta þar sem viðkomandi breytingar á lögum og reglugerðum heyra undir innanríkisráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti, mennta- og menningarmálaráðuneyti og velferðarráðuneyti.

En í tilefni orða hv. þingmanns um að lítið hafi gerst í þessum málum frá því að skýrslan var lögð fram finnst mér rétt að nefna hér, sem er þó kannski ekki sýnilegt nema þeim sem málið varðar, að Þjóðskrá hefur lagt mikla vinnu í það undanfarið að breyta tölvukerfum sínum þannig að börn séu skráð og með tengingar við báða foreldra. Það er svo sem ekki sýnilegt neinum öðrum en viðkomandi foreldrum. Mér er sagt að foreldri geti farið inn á vefslóðina www.island.is, jafnvel foreldri sem ekki er með forsjá barns og ekki með barn sem býr heima, og fengið lista yfir börn sín á bréfsefni Þjóðskrár. Þeim upplýsingum er ekki miðlað áfram. Þjóðskrá er ekki farin að miðla þeim áfram. En allt að einu getur viðkomandi foreldri fengið þessar upplýsingar. Það hefur nefnilega ekki endilega verið hægt nema með ákveðinni vinnslu í Þjóðskrá, með því að fletta upp frumgögnum. En Þjóðskrá hefur lagt í þessa vinnu. Mér skilst að það séu eingöngu fjórir árgangar barna, ef við miðum við börn upp að 18 ára aldri, sem enn á eftir að færa inn í kerfi Þjóðskrár með þessum hætti. Það er vinna sem Þjóðskrá hefur lagt í með annarri tilfallandi vinnu, þ.e. ef Þjóðskrá fær beiðni um einhvers konar færslu á tilteknu barni er þetta fært inn um leið. Þetta er mikil handavinna, svo því sé haldið til haga, þetta gerist ekki einn, tveir og þrír að breyta skráningum barna í Þjóðskrá.

Svo er spurt hvenær frumvörp um málið verði lögð fram. Eins og ég hef nefnt er fyrirhugað að vinna við frumvarp til breytinga á barnalögum ásamt bandormi á ýmsum öðrum lögum geti hafist í vor.