146. löggjafarþing — 39. fundur,  6. mars 2017.

jafnt búsetuform barna sem búa á tveimur heimilum.

183. mál
[16:35]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Herra forseti. Mig langar að lesa hér hluta úr umsögn umboðsmanns barna við skýrslu um jafnt búsetuform en þar kemur fram sú mikilvæga áminning að ávallt þurfi að huga að hagsmunum barna við ákvarðanir sem þau varða. Í umsögninni segir, með leyfi forseta:

„Umboðsmaður telur þó ekki rétt að skipt búseta muni fela í sér að foreldrar þurfi að taka allar ákvarðanir sem varða barn í sameiningu. Þó að það sé að sjálfsögðu æskilegt að foreldrar hafi samráð um allar ákvarðanir sem varða börn, er ljóst að sú staða getur ávallt komið upp að foreldrar séu ósammála. Mikilvægt er að takmarka eins og hægt er togstreitu í lífi barna og reyna eftir fremsta megni að hlífa þeim við deilum foreldra. Að mati umboðsmanns barna er ekki viðunandi að barn geti lent í þeirri stöðu að ekki sé hægt að taka ákvörðun, til dæmis um skólavist eða læknismeðferð, einungis vegna þess að foreldrar geta ekki komist að samkomulagi. Eins og umboðsmaður hefur áður bent á eiga hagsmunir barna af því að njóta stöðugleika og samfellu í daglegu lífi ávallt að vega þyngra en hagsmunir foreldra af því að standa jafnfætis þegar kemur að ákvarðanatöku [...] Þess vegna telur hann rétt að lögheimilisforeldri eigi áfram lokaorðið um vissar ákvarðanir sem varða daglegt líf barna, þegar foreldrar geta ekki komist að samkomulagi.“

Ég hvet (Forseti hringir.) hæstv. ráðherra til að lesa þessa umsögn og nýta sér þessar ráðleggingar við gerð frumvarps.