146. löggjafarþing — 39. fundur,  6. mars 2017.

biðlistar eftir greiningu.

157. mál
[16:50]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda og ráðherra svörin. Það er verið að tala um að börn séu ofgreind samkvæmt nýrri skýrslu og menntakerfinu ekki treyst. Ef ég hef heyrt rétt í ráðherra vill hann færa þetta til skólans. Ekki eru allir skólar búnir fagfólki til að greina þó að margir þeirra séu það. Ég spyr: Hverjir eru það þá innan skólans sem ættu að sjá um slíka greiningu að mati ráðherrans eða sér hann fyrir sér að hún verði færð hreinlega út til félagsþjónustu sveitarfélaganna? Eða með hvaða hætti á að gera þetta?

Ég held að það sé líka hluti af skýringunni að álagið í skólunum hefur verið svo mikið vegna þess að nemendur hafa átt við alls konar erfiðleika að etja sem oft er hægt að vinna úr án þess endilega að fara beinlínis í greiningu. Þá hefur hins vegar skort á þverfaglegt teymi, bæði innan skólanna en ekki síður fyrir fjölskyldur hjá heilsugæslum.

Af því að heilbrigðisráðherra er hér líka er rétt að nefna það sem við höfum rætt ítrekað undanfarið, bæði geðheilbrigðismálin (Forseti hringir.) en ekki síður önnur vandamál tengd meðferðarúrræðum sem ekki hafa verið til staðar úti á landsbyggðinni.