146. löggjafarþing — 39. fundur,  6. mars 2017.

biðlistar eftir greiningu.

157. mál
[16:54]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn og hæstv. ráðherra fyrir svarið. Ég verð þó að játa að mér finnst hálfkaldhæðnislegt að ákvörðun um hvort auka eigi fjármagn til að stytta biðlista eftir greiningu bíði greiningar á því hvaða árangri aukið fjármagn í fyrra skilaði. Ég skildi hæstv. ráðherra þannig að biðlistinn hefði verið styttur um 100 einstaklinga. Ég hefði haldið að það væri ágætisgreining á því hverju verkefnið skilaði, hvað við þurfum meira?

Fyrir mér er þetta tvíþætt, annars vegar auknir fjármunir til að taka á þeim bráðavanda sem biðlistarnir eru og hins vegar taka á meintum kerfisvanda ef hann er til staðar og fara í kerfisbreytingar til frambúðar. Hvort tveggja er nauðsynlegt, en það má ekki láta það bíða þess að taka á bráðavandanum að ætla að fara í umfangsmikla endurskoðun á kerfinu. Við það hljótum við að vilja vanda okkur og byggja til frambúðar.