146. löggjafarþing — 39. fundur,  6. mars 2017.

biðlistar eftir greiningu.

157. mál
[16:55]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Elsu Láru Arnardóttur fyrir að vekja máls á þessu mikilvæga málefni. Það liggur fyrir að hér eru langir biðlistar og allt of löng bið fyrir of mörg börn í vanda. Við glímum við mikið álag í skólum, það er breytt samfélagsgerð frá því sem áður var. Við verðum að bregðast við bráðavanda og ég fagna því svörum ráðherra áðan um fyrirhuguð áform í þeim efnum.

Það sem ég vildi leggja hér inn er spurning um meiri forvarnir, við þurfum að tala um meiri þverfaglega vinnu í teymisvinnu sem kemur að skólunum. Skólarnir eru stútfullir af hæfileikaríku og góðu fólki sem hefur full tök á því að standa að frumgreiningu sem gæti hjálpað einstaklingum áfram. Það er bagalegt að skólarnir þurfi að bíða eftir ákveðnum greiningum og vera háðir fjárframlagi til að hjálpa fólki áfram.