146. löggjafarþing — 39. fundur,  6. mars 2017.

biðlistar eftir greiningu.

157. mál
[16:56]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Elsa Lára Arnardóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þessa góðu umræðu, þau góðu innlegg sem hv. þingmenn hafa komið með inn í umræðuna og hæstv. félagsmálaráðherra fyrir þau svör sem hann veitti. Það er rétt sem fram kom í svörum hæstv. félagsmálaráðherra, við þurfum að vinna á þeim kerfislæga vanda í þessu kerfi að börn þurfi sérstaka greiningu, að það þurfi það þunga ferli sem löng bið er eftir svo fjármagn fylgi barninu svo það fái stuðning í skólakerfinu. Þetta er óþolandi.

Síðan er það sem er mjög erfitt að sjá, stundum eru börn með margþættan vanda sem fara inn á gráa svæðið alls staðar í kerfinu, kannski með fjórar, fimm, mismunandi greiningar, en skora hvergi á þeim viðmiðum svo reglur jöfnunarsjóðsins borgi með einstaklingnum inn í kerfið. Þessir einstaklingar verða svolítið út undan þar þannig að ég vona svo sannarlega að þegar við höfum unnið sem fyrst — og ég spyr hæstv. félagsmálaráðherra hvort þetta verði ekki gert fljótt því að þörfin er mikil, það er mikill bráðavandi. Ég vona svo sannarlega að líkurnar aukist á að þau börn sem hafa dottið inn í þetta gráa kerfi á milli fái aðstoð við hæfi þegar við höfum farið af stað með þverfaglega vinnu sem er svo mikilvæg og er auðvitað í skólunum líka.

Mig langar að minna líka á mikilvægi þverfaglegra hópa og teyma. Sjálf hef ég reynslu af því sem fagmaður í skólastarfi til nokkurra ára að það getur skipt gríðarlega miklu máli að foreldrar, fagfólk og þverfaglegt teymi fagfólks hittist og ræði hvernig hafi gengið með ákveðið tímabil og hvað eigi að gera áfram. Það gefur mjög góða raun um hvernig (Forseti hringir.) tekst með líðan barnsins í framhaldi af því.