146. löggjafarþing — 39. fundur,  6. mars 2017.

biðlistar eftir greiningu.

157. mál
[16:59]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Þorsteinn Víglundsson) (V):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni enn og aftur fyrir þessa góðu umræðu. Kjarni málsins er í raun og veru að við þröngvum börnum í gegnum einhverja kerfislæga greiningu til að þeim fylgi fjármagn. Um leið erum við hins vegar að setja á þau stimpil um formlega viðurkenningu á vangetu þeirra sem er kannski algjörlega minni háttar en fylgir þeim alla leið í gegnum skólaferilinn. Yfirgnæfandi meiri hluti þessara barna þarf minni háttar aðstoð sem þarf samt sem áður að keyra í gegnum formlegan farveg. Þetta er algjör óþarfi. Það er þegar í gangi verkefni með Reykjavíkurborg um það hvernig við getum fækkað þessum tilvísunum og tekið á þessu með öðrum hætti.

Við höfum byggt upp mjög faglegan og öflugan grunnskóla og leikskóla. Þau skólastig eru fullkomlega fær um að taka á miklu stærri hluta þessarar greiningar en þau gera í dag. Þarna þarf samstarf við sveitarfélögin líka til að tryggja að fjármagnið fylgi þannig að hægt sé að grípa strax til úrræða, þurfi ekki að bíða eftir formlegri greiningu og sé þá hægt að beina því afli sem við höfum í Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins og öðrum slíkum stofnunum að þeim börnum sem virkilega þurfa á aðstoðinni að halda. Það held ég að sé kjarni máls í þessu.e

Varðandi það að við séum ekki að verja of miklum tíma í greiningar og hvað hefur gengið vel er þetta auðvitað samspil sem við þurfum að átta okkur betur á. Hvaða árangri getum við náð með því að draga úr fjölda tilvísana, og þannig nýtt betur það fjármagn sem nú þegar er fyrir hendi í þessu, og að hvaða marki þurfum við síðan raunverulega að bæta við? Það er það sem þetta snýst um. Ég geri ráð fyrir að niðurstaða úr þeirri greiningu ætti að liggja fyrir fljótlega. Það skiptir gríðarlega miklu máli að við gerum betur í þessum efnum og ég þakka enn og aftur góða umræðu.