146. löggjafarþing — 39. fundur,  6. mars 2017.

áfengisfrumvarp.

160. mál
[17:17]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Elsa Lára Arnardóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmönnum fyrir innlegg þeirra inn í þessa umræðu. Það er rétt sem kemur fram í máli hæstv. heilbrigðisráðherra, aukið aðgengi að áfengi samræmist ekki eða getur ekki samræmst heilbrigðisstefnu hæstv. ríkisstjórnar. Ég er líka sammála því sem hæstv. heilbrigðisráðherra segir um að svar hans hafi verið töluvert ruglingslegt. Ég tek undir orð hv. þingmanna sem hér hafa talað, ég hefði gjarnan viljað fá skýrari svör frá hæstv. heilbrigðisráðherra.

Af því að hæstv. heilbrigðisráðherra ætlar að bíða eftir umsögnum um málið til að mynda sér skoðun á því langar mig bara til að segja honum að í mjög mörgum tilvikum þegar málið var lagt fram síðast og þarsíðast ítrekaði fagfólk skoðun sína sem það hafði áður tjáð á fyrri framlagningu þessa máls, það sendi aftur sömu umsagnir um málið og það hafði gert áður. Ég las í fyrri ræðu minni upp orð landlæknis þar sem hann varar við samþykkt þessa frumvarps. Embætti landlæknis er mjög virt stofnun í samfélaginu og ítrekar jafnframt fyrri afstöðu sína til málsins.

Mig langar bara að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra aftur: Tekur hann undir orð og áhyggjur embættis landlæknis sem biður okkur alþingismenn um að samþykkja ekki þetta frumvarp? Hvaða atriði þurfa að breytast í þessu blessaða áfengisfrumvarpi sem verði til þess að ráðherra gæti hugsað sér að samþykkja það eða samþykkja það ekki? Hvaða atriði eru þarna sem standa í hæstv. heilbrigðisráðherra önnur en þau sem við höfum áhyggjur af sem erum að hugsa um og hlusta á orð fagfólks og embættis landlæknis varðandi þetta mál sem varar við samþykkt þess?