146. löggjafarþing — 39. fundur,  6. mars 2017.

áfengisfrumvarp.

160. mál
[17:19]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Óttarr Proppé) (Bf):

Virðulegur forseti. Ég þakka umræðuna og vil ítreka að það sem ráðherra vildi koma á framfæri í fyrri ræðu sinni gagnvart því að hann vildi sjá hvernig málinu yndi fram í þinginu fólst ekki í því hvort inn kæmu nýjar skoðanir í umsögnum, heldur þvert á móti því hvort og hvernig þingnefnd hygðist fara með málið eða gera breytingar á því. Reynslan hefur sýnt okkur að áður hafa verið gerðar mjög veigamiklar breytingar á sambærilegum frumvörpum. Það er sá fyrirvari sem ég set.

Ég ítreka það sem ég reyndi að segja í fyrri ræðu minni, ég hyggst ekki styðja aðgerðir sem auka stórlega aðgengi að áfengi sem getur leitt til aukins kostnaðar eða aukinnar neyslu. Það er mikilvægt að taka tillit til leiðbeininga Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar þar sem rætt er um að það að takmarka aðgengi sé árangursrík leið til að draga úr skaðlegum áhrifum áfengis. Þess vegna taldi ég það upp að aðgengi er ekki einungis eins konar heldur margs konar.

Í nýlegu bréfi sem svæðisstjóri Evrópu hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni skrifaði ráðherranum er lögð áhersla á að tekið sé tillit til lýðheilsusjónarmiða áður en ákvarðanir í þessu sambandi eru teknar. Ég tek undir það.

Varðandi þá fyrirspurn hvað þurfi að breytast til þess að ég telji frumvarpið gott er það kannski fyrst og fremst að ég er ekki fullvissaður um að það breyti öllu hvort sérverslanir með áfengi séu opinberar stofnanir eða ekki. Ég legg í það minnsta áherslu á að aðgengi sé ekki aukið og að lýðheilsusjónarmiðum sé þannig fylgt. (Forseti hringir.)

Ég var sömuleiðis spurður af hv. þingmanni hvort til stæði einhver millileið um þetta frumvarp af hálfu (Forseti hringir.) ríkisstjórnarflokkanna. Ég vil taka sérstaklega fram að þetta frumvarp er ekki á vegum ríkisstjórnarflokkanna, heldur er þetta þingmannafrumvarp sem er lagt fram af þingmönnum margra flokka. Ég þakka umræðuna aftur kærlega.