146. löggjafarþing — 40. fundur,  7. mars 2017.

skipulag þingstarfa, orð fjármálaráðherra í viðtali.

[13:31]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Frú forseti. Ég kem hér upp til að spyrja forseta hvers vegna ekki sé hægt að negla niður dagskrá þingsins fyrir vikuna og birta fyrir hverja helgi. Það hefur mjög hamlandi áhrif á getu mína til að vinna vinnuna mína eins vel og mig langar til ef ég hef enga yfirsýn eða möguleika á að skipuleggja tíma minn. Og tíminn er naumur, frú forseti, því að ég er einstætt foreldri og upplifi mig dálítið vanmáttuga gagnvart þessu skipulagsleysi.

Þetta er ekki uppskriftin að fjölskylduvænum vinnustað. Ég velti því fyrir mér hvort þetta séu mögulega leifar af gamla tímanum þegar það voru aðallega karlmenn hérna inni og konurnar heima að sinna börnunum. En þingstarfið hlýtur að eiga vera aðgengilegt öllum, líka einstæðum foreldrum, en til þess að það verði mögulegt verðum við að bæta vinnubrögðin. Ég hvet því forseta til að taka frumkvæðið og færa þingstörfin inn í nútímann. Mér finnst ég ekki vera að biðja um mikið, bara smá skipulag fram í tímann svo ég og fleiri þingmenn getum sinnt starfi okkar með prýði og haft raunverulegt aðhald með ríkisstjórninni.