146. löggjafarþing — 40. fundur,  7. mars 2017.

skipulag þingstarfa, orð fjármálaráðherra í viðtali.

[13:35]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Ég tek undir það sem kemur fram í máli hv. þm. Kolbeins Óttarssonar Proppés og bið hæstv. forseta um að ræða þetta orðfæri við hæstv. ráðherra, þ.e. að hann kalli þingið siðlaust. Það er grafalvarlegt mál. Hér erum við að tala um það sem okkur bar að gera samkvæmt lögum, þ.e. að vinna samgönguáætlun á faglegum grunni. Það gerðum við og það sem meira var að um það tókst þverpólitísk sátt. Hæstv. forseti var einn þeirra þingmanna sem greiddu atkvæði með þessari áætlun sem er siðlaus að mati ráðherrans.

Síðan segir ráðherrann í sama viðtali að það hafi aftur verið gerð mistök þegar stjórnlaust þing samþykkti fjárlagafrumvarp. Ég tel þetta mjög alvarlegt orðfæri hjá hæstv. ráðherra, að hann tali um að Alþingi Íslendinga sé stjórnlaust (Forseti hringir.) þegar það er réttkjörið undir forystu forseta sem það hefur sjálft valið sér og þegar það er að afgreiða mál sem því ber að gera samkvæmt lögum. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)