146. löggjafarþing — 40. fundur,  7. mars 2017.

skipulag þingstarfa, orð fjármálaráðherra í viðtali.

[13:42]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg):

Frú forseti. Ég sé mig knúinn til að kveðja mér hér hljóðs til að verja hv. forseta sérstaklega. Ég fæ ekki betur séð en að þau orð hæstv. ráðherra að hér sitji siðlausir þingmenn eigi sérstaklega við um þá 11 þingmenn sem samþykktu samgönguáætlun í haust og samþykktu jafnframt fjárlög nú fyrir jól. Í þeim hópi er hæstv. forseti Alþingis, Unnur Brá Konráðsdóttir. Ég fyrir hönd hennar sé ekki að við sem þing eigum að sitja undir slíkum aðdróttunum. Þó að ráðherrann hafi litla þingreynslu hlýtur hann, jafn reynslumikill sem hann er af lífsins störfum, að geta borið smá virðingu fyrir þinginu og hlutverki sínu í gangi lýðræðisins hér á landi. Orð af þessu tagi hlýtur að þurfa að taka upp á vettvangi stjórnarflokkanna. Ég vænti þess að forseti geri það hið fyrsta.