146. löggjafarþing — 40. fundur,  7. mars 2017.

skipulag þingstarfa, orð fjármálaráðherra í viðtali.

[13:46]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegi forseti. Það er leitt að hæstv. fjármálaráðherra sé ekki meiri bógur en svo að hann ráði ekki við að fara eftir lögformlegum samþykktum þingsins, heykist á því verkefni sem þingið felur honum. Látum það nú vera, en að bregðast við á þann hátt að ráðast á þá stofnun sem setur lögin í landinu, sem hæstv. fjármálaráðherra ber að fara eftir, er ekki stórmannlegt. Ég fer fram á það við virðulegan forseta að hæstv. fjármálaráðherra komi í þennan ræðustól og biðji þingheim afsökunar á orðum sínum. Hvernig eigum við að geta starfað með hæstv. fjármálaráðherra í trausti þegar hæstv. fjármálaráðherra hefur ekki meira álit á þinginu sem stofnun en raun ber vitni, að hann kallar það siðlaust?