146. löggjafarþing — 40. fundur,  7. mars 2017.

störf þingsins.

[13:59]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Nýleg greining Þjóðskrár á íbúðamarkaðnum sýnir að það vantar um 8 þús. íbúðir, aðallega fyrir yngri kynslóðina, en eigendahlutfall 25–27 ára er núna helmingi lægra en það var í upphafi aldar. 12 þús. færri yngri en 35 ára eiga íbúðir núna miðað við árin 2000–2006. Stöldrum aðeins við þessar tölur. 8 þús. íbúðir, hvað þýðir það? Til þess að halda í við fólksfjölgun þarf að byggja um 2 þús. íbúðir á ári. Við skuldum sem sagt fjögur ár af íbúðum. Það er ekkert rosalega mikið, er það? En hvað eru 2 þús. íbúðir á ári? Það er eins og að byggja Vestmannaeyjar, Seltjarnarnes eða Fjarðabyggð á hverju ári. 8 þús. íbúðir jafnast á við Reykjanesbæ eða Akureyri.

Í greiningu Þjóðskrár er meira að segja sett upp sú sviðsmynd að það vanti 11 þús. íbúðir. Það myndi þýða að við þyrftum að byggja nýjan Hafnarfjörð. Verkefnin sem við stöndum frammi fyrir eru rosalega mörg. Uppbygging á sviði heilbrigðis, samgangna, mennta. Og það þarf að byggja það sem jafnast á við fjórða stærsta bæjarfélag á landinu.