146. löggjafarþing — 40. fundur,  7. mars 2017.

störf þingsins.

[14:07]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur fyrir að beina orðum sínum til mín með þessum hætti. Við stóðum saman í fjárlagagerðinni í desember sl. og hún þekkir þá vinnu vel. Við störfuðum reyndar saman í hv. fjárlaganefnd á síðasta kjörtímabili þannig að við þekkjum nokk til þeirra starfa sem við erum að fást við í fjárlagavinnunni. Það var sannarlega rætt. Af því að hv. þingmaður spyr beint að því ætla ég bara að staðfesta að við ræddum það í fjárlaganefnd að það væri alveg möguleiki á að ný ríkisstjórn, hver sem hún yrði, því að það lá ekki fyrir á þeim tíma hvaða ríkisstjórn tæki við, kæmi með frumvarp um breytingar á fjárlögum sem þáverandi fjárlaganefnd var að fást við að setja, eins og hún rakti.

Ég boða það ekki að við munum breyta fjárlögunum. Ég er ekki heldur tilbúinn að taka undir það að við munum breyta þeim tekjustofnum sem eru til vegagerðar. Við getum líka beitt öðrum aðferðum til þess. Þess vegna hefur hæstv. samgönguráðherra Jón Gunnarsson opnað umræðuna um aðrar leiðir í fjármögnun í samgönguframkvæmdum. Hins vegar er alveg rétt, og ég ætla bara að taka undir og undirstrika það, að þessi ríkisstjórn hefur lagt áherslu á uppbyggingu samgöngukerfis á öllum sviðum. Ég trúi því að þess muni sjá stað í væntanlegri fjármálaáætlun sem kemur inn í þingið á vordögum. Við erum enn að fást við að vinna svokallaða fjármálastefnu í hv. fjárlaganefnd sem býr til rammann, en ramminn sem við erum að fást við þar, fjárhagsrammi ríkisins, segir okkur líka að við getum hafið sókn í uppbyggingu samgöngumannvirkja. Við getum líka farið hraðar fram með því að beita annarri hugsun og annarri nálgun við fjármögnun þeirra en bara að hækka þessa tekjustofna vegna þess að tekjustofnar samgönguframkvæmda snerta t.d. ekki vaxandi fjölda bifreiða sem nota aðra orkugjafa. Þess vegna verðum við að (Forseti hringir.) skoða þá gjaldtöku líka frá grunni.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna