146. löggjafarþing — 40. fundur,  7. mars 2017.

störf þingsins.

[14:21]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Frú forseti. Það logar allt í samfélaginu út af vanfjármagnaðri samgönguáætlun. Svo vogar hæstv. fjármálaráðherra sér að tala um að þingið sé siðlaust og stjórnlaust og fríar sig allri ábyrgð. Hvers lags orðræða er það úr munni hæstv. fjármálaráðherra? Það er auðvitað ekki boðlegt. Hæstv. ráðherra ætti að koma hingað og biðja þingið og þjóðina afsökunar á þessari orðræðu. Er verið að festa það í sessi hjá framkvæmdarvaldinu að tala svona til þingsins? Það ekki í lagi.

Það er eðlilegt að við þingmenn hefjum upp raust okkar á þingi vegna þess að samgönguáætlun er vanfjármögnuð. Þingið leggur fram samgönguáætlun og ég tel það siðlaust af hálfu fjármálaráðuneytisins að horfa ekki til þess og leita ekki leiða til þess að fjármagna samgönguáætlun með tekjum. Peningar detta ekki niður af himnum ofan í einhverju happdrætti hér á landi. Menn þurfa að hafa kjark til að afla tekna. Hann virðist ekki vera til hjá þessari hæstv. ríkisstjórn. Hún hefur ekki nokkurn kjark til að afla tekna. Hvenær í ósköpunum er hægt að hefja framkvæmdir í innviðauppbyggingu ef ekki núna í því svokallaða góðæri sem er, þegar stærsti atvinnuvegur landsins, ferðaþjónustan, malar gull og við fáum gífurlegan gjaldeyri inn í landið? Hvenær höfum við efni á að byggja upp samgöngur, heilbrigðiskerfið, menntakerfið? Hvenær? Þegar allt er hér er farið til fjandans?

Menn þora ekki að afla tekna eða nýta markaðar tekjur til vegaframkvæmda, bæta ekki í þar sem þörf er á og afsala sér tekjum, menn halda því áfram. Það gengur auðvitað ekki lengur. Veikasta svæðið, Vestfirðir, er skorið langmest niður, um 1.200 milljónir. (Forseti hringir.) Þótt önnur svæði þurfi virkilega á fjármagni að halda (Forseti hringir.) eru það mjög sérstök skilaboð til landsbyggðarinnar (Forseti hringir.) að Vestfirðir séu skornir langmest niður, um 1.200 milljónir.


Efnisorð er vísa í ræðuna