146. löggjafarþing — 40. fundur,  7. mars 2017.

staða fanga.

[14:29]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir að vekja máls á þessu mikilvæga efni. Það er rétt að geta þess í upphafi að refsing hefur margþætt hlutverk. Það liggur í augum uppi að refsing er hegning. Refsingu er ætlað að vera víti til varnaðar en refsingu er líka ætlað að draga úr ítrekun brota. Mönnum sem hefur sem betur fer verið mjög tamt undanfarin misseri að nota hugtakið betrun, en þessu síðasttalda markmiði er ætlað að draga úr ítrekun brota. Vinna og nám eru hluti af betrun en margt annað er undir, svo sem sanngjörn og mannúðleg framkoma fullnustukerfisins gagnvart þeim sem afplána.

Ég nefni þetta hér vegna þess að spurt er út í hvort unnið sé út frá hugmyndafræði um betrun eða refsingu. Í nýjum lögum sem Alþingi samþykkti á síðasta ári var betrunarstefnan lögfest. Í 1. mgr. laganna segir að „markmið laganna sé að draga úr líkum á ítrekun brota og stuðla að færsælli betrun og aðlögun dómþola að samfélaginu“.

Markmið um fullnustu refsinga á líka að felast í því að undirbúa dómþola fyrir virka þátttöku í samfélaginu og draga sem mest úr þeim skaða sem útilokun frá samfélaginu hefur óhjákvæmilega í för með sér. Með þessum lögum voru réttindi fanga aukin með rýmkun á fullnustu utan fangelsa, svo sem samfélagsþjónustu og rafrænu eftirliti, vinnu og námi utan fangelsis, fjölskylduleyfi og þess háttar. Það eru allt úrræði, ásamt öðrum, sem lögin kveða á um sem eru til þess fallin að draga úr neikvæðum áhrifum afplánunar í fangelsi og hjálpa föngum þannig að aðlagast samfélaginu á ný og að stuðla að lægri endurkomutíðni.

Almennt hefur vægi vistunar utan fangelsa verið aukið. Rafrænt eftirlit hefur verið tekið upp sem fullnustuúrræði og rýmkað. Langtímafangar geta nú, þegar um er að ræða lengri refsingar, afplánað síðustu 12 mánuðina heima hjá sér með ökklaband. Að sama skapi hefur vægi samfélagsþjónustu aukist. Menn geta afplánað allt að 12 mánaða fangelsisrefsingu með samfélagsþjónustu í stað fangelsis áður að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.

Ég vil líka nefna það í þessu sambandi að spurt hefur verið um starfshóp sem hefur verið að störfum sem sérstaklega hefur verið falið að fjalla um málefni geðsjúkra fanga. Sá starfshópur var skipaður í árslok 2015. Fyrirhugað var frá upphafi að vinna hópsins yrði gerð að fullnustuáætlun og niðurstöður þessa starfshóps felldar inn í áætlun. Starfshópurinn hefur ekki lokið störfum, en vinna stendur yfir við gerð fullnustuáætlunar sem vonast er til að ljúki störfum á næstu vikum. Í öllu falli verður fullnustuáætlun kynnt hér á þessu ári. Í fullnustuáætlun og við gerð fullnustuáætlunar verður tekið mið af nauðsyn þess að huga sérstaklega að stöðu geðsjúkra og í því skyni að móta heildarstefnu í málefnum þeim tengdum. Af því að hér var sérstaklega nefnt Hagsmunafélag fanga – Afstaða, þá stendur ekki annað til en að sjónarmið félagsins fái að koma fram við gerð og vinnu fullnustuáætlunar.

Það er alveg rétt sem hér hefur komið fram að staða geðsjúkra fanga eða þeirra sem þurfa á þjónustu geðlækna eða sálfræðinga að halda er enn þá bágborin í fangelsum, það verður alveg að segjast eins og er, kannski svipað og hún er utan fangelsanna. Það liggur alveg fyrir að þá þjónustu þarf að bæta. Í dag eru tvö stöðugildi sálfræðinga hjá Fangelsismálastofnun. Það hefur stundum verið erfitt að manna þær stöður en Fangelsismálastofnun sjálf hefur metið það svo að stór hluti fanga þurfi einhvers konar meðferðarinngrip ef vel ætti að vera, einkum og sér í lagi til að ná því markmiði að draga úr endurkomutíðni í fangelsum. Ég vil þó nefna í lokin varðandi endurkomutíðnina að hún er með skásta móti hér á Íslandi miðað við hin Norðurlöndin.