146. löggjafarþing — 40. fundur,  7. mars 2017.

staða fanga.

[14:46]
Horfa

Andri Þór Sturluson (P):

Virðulegi forseti. Að frelsissvipta einstakling er grafalvarlegt. Sá alvarleiki endurspeglast ekki í þeim fjármunum sem veittir eru til fangelsismála. Í gegnum tíðina hafa aðilar beggja megin borðsins fengið þau skilaboð að sú athöfn að fjarlægja manneskju úr samfélaginu, loka hana inni, takmarka tíma hennar verulega með ástvinum og hreinlega lífinu sjálfu sé eitthvað sem er gert, hefur alltaf verið gert og enginn missir svefn yfir. Það er sko ekkert smámál. Hví beitum við miðaldatæki eins og fangelsisvist sem aldrei hefur sýnt fram á viðunandi árangur? Hvernig bætir einhver vaktarskammarkrókur samfélagið okkar? Hver er réttlæting okkar fyrir því að svipta fólk tíma af ævi sinni, tíma sem hægt væri að segja að sé það eina sem nokkurt okkar raunverulega á og það án þess að til sé skýrt plan um hvað sé gert til að sú aðgerð skili betri einstaklingi út í samfélagið aftur?

Það bráðvantar geðheilbrigðisþjónustu í fangelsin. Við setjum lög, sjáum um að þeim sé framfylgt. Við læsum manneskjur inni og síðan sinnum við þeim ekki á fullnægjandi hátt og berum við að við séum blönk. Er það ósanngjörn krafa að einstaklingar njóti alvörugeðheilbrigðisþjónustu, fái að hitta sérfræðinga, sálfræðinga, félagsfræðinga, á þeim tíma þegar við sviptum mann öllu? Nei, hún er ekki ósanngjörn. Það sem meira er, hún er það sem þarf til að ná fram markmiðum með frelsissviptingunni sjálfri. Til hvers að hafa kerfi sem þjónar ekki markmiðum sínum? (Gripið fram í: Heyr, heyr.)