146. löggjafarþing — 40. fundur,  7. mars 2017.

staða fanga.

[14:50]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég þakka málshefjanda því að það er innihaldið í þessu sem og öðru sem skiptir máli. Við þurfum heildstæða nálgun þar sem að þurfa að koma bæði velferðarráðuneyti, innanríkisráðuneyti og menntamálaráðuneyti. Það vantar í sjálfu sér ekki hugmyndir að góðum úrræðum sem lúta að félagslega miðuðum lausnum til handa því fólki sem er í þessari stöðu en hlutirnir gerast gjarnan hægar en maður vildi.

Litið hafa dagsins ljós ýmsar góðar tillögur til úrbóta um málefni fanga, t.d. tillögur frá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu, Góð lausn, sem er af svipuðum toga og verkefni sem sett var á laggirnar í Danmörku. Hún snýst um að fangar fái meiri félagslega aðstoð meðan á afplánun stendur og þegar líða fer að lokum afplánunar fá þeir einnig félagslega aðstoð frá sveitarfélaginu sem tekur við.

Kerfið okkar er hins vegar verulega vanfjármagnað til að takast á við slíkt eins og svo margt annað. Það vantar tilfinnanlega eftirfylgni. Norðurlöndin, fyrir utan Ísland, hafa tekið upp betrunarvist með ótvíræðum árangri með fækkun glæpa, fækkun endurkomu og minni kostnaði hjá fangelsum, lögreglu og dómstólum. Ég tek undir þau sjónarmið að verknám, starfsþjálfun og samskipti við fjölskyldu, ekki síst í þágu barna þeirra, sé lykillinn að betrun. Og ég vona líka að menntamálaráðherra leggi áherslu á það í sínum störfum af því að svo fer allsherjar- og menntamálanefnd með hvort tveggja.

Við eigum að nálgast fangelsismál út frá hinum mannlega vinkli og hugmyndum um að hjálpa þeim sem hlotið hafa dóm til farsældar í lífinu. Burt séð frá þeirri staðreynd að slík nálgun skilar sér peningalega er aðalmálið að viðkomandi einstaklingar og þar með allt umhverfi þeirra batnar fyrir bragðið. Í úttekt Ríkisendurskoðunar á barnavernd í landinu kom fram að tryggja þurfi sérhæfð meðferðarúrræði fyrir börn á aldrinum 16–18 ára sem glíma við alvarlegan fíkniefnavanda, afbrotahegðun og börn sem glíma við fjölþætta geðröskun og hegðunarvandamál. Okkar skylda er að bregðast við með snemmtækri íhlutun til að gera allt sem hægt er til að fyrirbyggja að ungt fólk leiðist út í afbrot. En ríkisvaldið þarf líka að tryggja réttindi og góðan aðbúnað fanga að menntun og viðunandi meðferðar- og heilbrigðisþjónustu. Við eigum að leggja áherslu á betrunarvist í stað refsivistar í fangelsum landsins og efla geðheilbrigðisþjónustuna sem og samfélagsþjónustu í stað fangelsisrefsingar.