146. löggjafarþing — 40. fundur,  7. mars 2017.

staða fanga.

[14:54]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka málshefjanda, hv. þm. Birgittu Jónsdóttur, kærlega fyrir nauðsynlega umræðu vegna þess að við sem þjóð verðum að fara að breyta hugarfari okkar gagnvart refsingum eða fangelsisvist, frá refsingu til betrunar. Mér finnst enn í umræðunni, ef maður horfir á samfélagsmiðlana og annað þess háttar, margir hverjir vera á þeim stað að fangelsisvist sé einhvers konar lúxus.

Ég átti góðan dag fyrir tveimur árum síðan á Litla-Hrauni og Sogni með þáverandi fangelsismálastjóra Margréti Frímannsdóttur. Ég dvaldi þarna með henni frá morgni til kvölds, skoðaði aðstöðuna mjög vel og hitti marga fanga, talaði við fangaverði og þetta var mjög upplýsandi heimsókn svo ekki sé meira sagt. Það hefur margoft komið fram í umræðunni hér í dag að við viljum öll leggja áherslu á aukna menntun fanga, meðferðarúrræði og geðheilbrigðismál og aðstoð þar. Ég tek undir það.

Nú eru á Litla-Hrauni smiðjur og ýmis verkefni sem fangar geta unnið við. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hún hyggist beita sér fyrir bættri aðstöðu. Ein smiðjan þarna t.d. hangir varla saman, hún hriplekur, þetta er allt í mjög slæmu ásigkomulagi, að auki er það eilíft hark fyrir þá sem stýra fangelsinu að finna verkefni, finna nægileg verkefni fyrir fangana, vegna þess að margir fangar vilja vinna. Þeir vilja vinna. Menn verða að fá tækifæri og menn verða að sjá tilganginn með því að bæta sig. Menn verða að öðlast sjálfsvirðingu. Til dæmis eru margir fangar, eins og komið hefur fram, sem kunna varla að lesa, þeir hafa flosnað snemma upp úr skóla. Bara það að gefa mönnum tækifæri til að læra að lesa er byrjun á einhverju. (Forseti hringir.)

Ég þakka hv. þm. Jóni Steindóri Valdimarssyni fyrir að nefna frumvarpið sem liggur fyrir þinginu. Mig langar líka til að spyrja ráðherra út í afstöðu hennar til þess frumvarps. (Forseti hringir.) Eða er hún með aðra hugmynd, aðra leið (Forseti hringir.) sem getur gagnast fólki þegar það kemur (Forseti hringir.) út úr fangelsi, eitthvað sem tekur við? Það er líka mikilvægt.