146. löggjafarþing — 40. fundur,  7. mars 2017.

staða fanga.

[14:57]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir það frumkvæði að hefja þessa umræðu og ráðherra fyrir að taka þátt í henni með okkur. Samkvæmt tölum Fangelsismálastofnunar er yfirgnæfandi meiri hluti fanga karlmenn á þrítugs- og fertugsaldri og 75% þeirra hafa aðeins lokið grunnskólaprófi. Margir þeirra hafa jafnvel aldrei verið á almennum vinnumarkaði. Því getur verið mjög erfitt fyrir þessa menn að fóta sig í lífinu eftir fangelsisvist, með litla sem enga menntun og jafnvel enga starfsreynslu. Í dag er mjög takmörkuð starfsendurhæfing, starfsþjálfun eða stuðningur í boði eftir að afplánun lýkur.

Afstaða, félag fanga og annarra áhugamanna um bætt fangelsismál og betrun, talar mjög fyrir því að úr fangelsunum verði útskrifaðir iðnaðarmenn, smiðir, málarar, píparar eða kokkar — þetta er þeirra sýn — í staðinn fyrir að 60% fanga útskrifist sem öryrkjar. Hér á landi hafa stjórnvöld ekki tekið þá stefnu í verki að breyta fangelsismálum í betrunarvist í stað refsingarvistar. Betrunarvist þýðir að fangelsi bjóða upp á þátttöku í ýmsum uppbyggilegum viðfangsefnum og veita föngum aðgang að sérfræðiþjónustu í því augnamiði að hjálpa þeim að snúa til baka út í samfélagið betur staddir. Þar spilar aðgangur að menntun við hæfi og tómstundum miklu máli.

Skref í þessa átt hafa verið stigin hér á landi en við eigum enn langt í land. Á Norðurlöndum hefur betrunarvist og áhrif hennar á samfélagið verið mikið rannsökuð. Árangur Norðurlandanna í betrun er ótvíræður og hefur ekki aðeins lækkað endurkomutíðni í fangelsin heldur einnig fækkað glæpum, auk þess sem kostnaður hefur minnkað hjá lögreglu, fangelsum og dómstólum eins og hér hefur komið fram. Tekjur hafa aukist í formi skatta og kostnaður við örorkubætur fanga hefur minnkað. Í dag er endurkomutíðni fanga í Noregi um 20–25% á meðan á Íslandi, ásamt öðrum löndum með refsikerfi, hefur endurkomutíðnin að meðaltali verið 50% og þaðan af meira. (Forseti hringir.)

Við verðum að gera betur. Föngum á að gefast kostur á að snúa aftur til samfélagsins að afplánun lokinni sem betri einstaklingar. Það er auðvitað bæði ávinningur fyrir fangann sjálfan og samfélagið allt.