146. löggjafarþing — 40. fundur,  7. mars 2017.

staða fanga.

[15:02]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Þeirri spurningu var beint til mín um það hversu margir einstaklingar bíði nú eftir afplánun, en það eru auðvitað grundvallarmannréttindi að menn geti hafið afplánun sem fyrst. Því er til að svara að um 550 einstaklingar eru á svokölluðum boðunarlista. Það er heldur há tala, virðist vera, en hafa verður í huga að fangelsisrými í lokuðu fangelsi á Íslandi eru 56, þar með talið gæsluvarðhaldsrými. Þar af eru að lágmarki átta tekin frá fyrir kvenfólk, og 45 rými eru í opnu fangelsi. Fjárveiting til fangelsismála hefur undanfarin misseri ekki staðið umbótum fyrir þrifum. Hafa verður í huga að nú hefur nýtt fangelsi verið tekið í gagnið og hefur gríðarlega aukið fjármagn farið í málaflokkinn m.a. vegna þess. Var það mikil réttarbót.

Nú er í vinnslu, eins og ég hef nefnt, gerð fangelismálaáætlunar til 15 ára en það er hluti af réttarvörsluáætlun sem kynnt verður hér á næstu missirum í nokkrum köflum. Í þeirri fangelsismálaáætlun liggur fyrir að áhersla verður lögð á samráð nokkurra ráðuneyta sem þessi málaflokkur heyrir undir, t.d. velferðarráðuneytis og menntamálaráðuneytis, auk dómsmálaráðuneytisins, þegar þar að kemur.

Ég vil líka nefna hér að ég held að það hafi verið mitt fyrsta formlega verk sem ráðherra að gefa út nýja reglugerð um þóknun til fanga. Í þeirri reglugerð er námi gert hærra undir höfði en áður var. Nú er greitt jafn mikið til fanga fyrir nám og vinnu. Verknám er þar stór hluti. (Forseti hringir.) Ef ég mætti bæta því við í fljótu bragði er það kannski helst þar sem hallar á kvenfanga, aðstaða til verknáms fyrir kvenfanga er ekki eins góð og fyrir karla.

Ég vil að lokum þakka kærlega fyrir þessa umræðu. Það er bagalegt að geta ekki svarað einni spurningu sem til mín var beint. Ég hvet þingmenn til að taka þessi mál upp á þrengri forsendum en hér var gert. Ég þakka fyrir ánægjulegar umræður.