146. löggjafarþing — 40. fundur,  7. mars 2017.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

207. mál
[15:05]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Björt Ólafsdóttir) (Bf):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða. Samkvæmt 3. gr. laga nr. 48/2011, um verndar- og orkunýtingaráætlun, eða rammaáætlun eins og hún er kölluð í daglegu tali, skal eigi sjaldnar en á fjögurra ára fresti leggja fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða. Í áætluninni skal, í samræmi við markmið fyrrnefndra laga, lagt mat á verndar- og orkunýtingargildi landsvæða og efnahagsleg, umhverfisleg og samfélagsleg áhrif nýtingar, þar með talið verndunar. Rammaáætlun er því afar mikilvægt stjórntæki til að finna málamiðlanir í stórum og oft erfiðum málum sem hafa valdið miklum deilum í okkar samfélagi. Án hennar væri ekki unnið neitt heildstætt mat heldur bara karpað um einn og einn virkjunarkost. Það skiptir því miklu að allir hagsmunaaðilar sýni sanngirni gagnvart þessari vinnu, taki tillit til annarra sjónarmiða og geri sér grein fyrir því að allir þurfa að gefa eitthvað eftir af sínum sjónarmiðum. Annað væri skrýtin málamiðlun.

Tillagan sem ég mæli hér fyrir er lokapunkturinn á vinnu við 3. áfanga rammaáætlunar sem hefur átt sér stað frá árinu 2013. Það er mikilvægt að minna á að þetta er í fyrsta skipti sem vinnan við rammaáætlun er unnin í samræmi við lög um vernd og orkunýtingu landsvæða, en þau tóku að fullu gildi árið 2013. Rammaáætlun tekur til landsvæða og virkjunarkosta sem verkefnisstjórn áætlunarinnar hefur fjallað um og hafa uppsett rafafl 10 MW eða meira eða uppsett varmaafl 50 MW eða meira. Fjallar áætlunin um orkukosti sem orkufyrirtæki hafa óskað eftir að láta meta og einnig kosti sem Orkustofnun hefur óskað eftir að séu metnir.

Þann 14. janúar 2013 var gildandi rammaáætlun samþykkt á Alþingi og tóku þá gildi lög nr. 48/2011, að frátöldum 1.–3. gr. laganna sem höfðu öðlast gildi 20. maí 2011. Þann 25. mars 2013 skipaði þáverandi umhverfis- og auðlindaráðherra verkefnisstjórn áætlunarinnar í samræmi við 8. gr. laga nr. 48/2011 og hófst þá vinna við 3. áfanga rammaáætlunar sem ég mæli hér fyrir. Eins og þingmenn þekkja var óskað eftir því við verkefnisstjórn að flýta umfjöllun um átta virkjunarkosti og hófst þá ferli sem kallað hefur verið forgangsmeðferð. Því ferli lauk með því að Alþingi samþykkti að virkjunarkosturinn Hvammsvirkjun yrði færður úr biðflokki yfir í orkunýtingarflokk.

Samhliða umfjöllun um þá virkjunarkosti sem voru í forgangsröðun vann verkefnisstjórn að umfjöllun um þá virkjunarkosti sem henni voru sendir til umfjöllunar í 3. áfanga rammaáætlunar. Þann 10. mars 2014 lágu fyrir fyrstu drög Orkustofnunar að lista yfir virkjunarkosti til umfjöllunar en verkefnisstjórn fékk hann afhentan formlega 21. febrúar 2015. Verkefnisstjórn skipaði fjóra faghópa til að fara yfir virkjunaráform hver frá sínum sjónarhóli, meta þá og gera tillögur til verkefnisstjórnar. Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga nr. 48/2011 er fjöldi faghópa, samsetning þeirra og skipan þeirra, ákveðinn af verkefnisstjórn.

Faghópar 1 og 2 voru skipaðir 16. apríl 2014 og tóku til starfa í maí 2014. Verkefni faghóps 1 var að meta virkjunarkosti og landsvæði með tilliti til náttúru, menningarminja, landslags og víðerna. Verkefni faghóps 2 var að meta virkjunarkosti og landsvæði með tilliti til annarrar nýtingar en orkuvinnslu, svo sem vegna ferðaþjónustu, útivistar og landbúnaðar. Faghópur 3 var skipaður 9. júlí 2015 og tók til starfa í ágúst 2015. Verkefni faghóps 3 var að meta virkjunarkosti og landsvæði með tilliti til áhrifa þeirra á samfélagið, svo sem áhrifa á félagslega velferð íbúa, samfélagslega fjölbreytni, samskipti, samstöðu, virkni og aðra þá þætti sem hópurinn taldi æskilegt að leggja mat á.

Faghópur 4 var skipaður 12. október 2015. Verkefni faghóps 4 var að fjalla um virkjunarkosti og landsvæði með tilliti til hagrænna þátta, einkum út frá áhrifum einstakra virkjunarkosta eða hópa virkjunarkosta á þjóðarhag.

Verkefnisstjórn kynnti svo drög að tillögum sínum og hófst þá þriggja vikna samráðsferli þar sem alls 18 umsagnir frá 15 aðilum, stofnunum, almenningi og hagsmunaaðilum, bárust. Í kjölfarið á umsagnarferlinu vann verkefnisstjórn að tillögum sínum um flokkun virkjunarkosta. Því næst hófst lögbundið 12 vikna samráðsferli sem stóð frá 11. maí 2016 til 3. ágúst 2016. Þar bárust verkefnisstjórn 69 umsagnir frá alls 44 aðilum.

Aftur finnst mér mikilvægt að benda á að við alþingismenn, sem nú fáum málið til meðferðar, höfum í huga að þær umsagnir sem bárust eru alls ekki á einn veg, heldur eru þar einmitt reifaðar margar og mjög ólíkar skoðanir, með vernd og með nýtingu. Því er þetta stjórntæki sem rammaáætlun er svo gríðarlega mikilvægt. Það lýsir vel því málamiðlunarferli sem felst í rammaáætlun. Mér finnst mikilvægt að við höfum það í huga við afgreiðslu málsins.

Endanlegar tillögur verkefnisstjórnar bárust 26. ágúst sl. Í þeim er lögð til flokkun alls 82 virkjunarkosta. Tillögur verkefnisstjórnar eru einróma ef frá er talinn virkjunarkosturinn Hólmsárvirkjun við Atley þar sem tveir fulltrúar í verkefnisstjórn skiluðu séráliti. Ég hef nú, að höfðu samráði við ráðherra orkumála eins og lög gera ráð fyrir, farið yfir tillögur verkefnisstjórnar og legg þær fram á Alþingi.

Ég mæli fyrir tillögunum óbreyttum eins og þær voru settar fram af verkefnisstjórn til umfjöllunar og afgreiðslu Alþingis. Samkvæmt skýrslu verkefnisstjórnar fór umhverfismat áætlana fram samhliða gerð áætlunarinnar. Ég fer ekki yfir rökstuðning fyrir flokkun hvers virkjunarkosts fyrir sig heldur vísa þar til skýrslu verkefnisstjórnar og þá sérstaklega kafla 9.3 á bls. 165. Það hefur verið nefnt að við flokkun virkjunarkosta hafi einungis verið byggt á niðurstöðum tveggja faghópa, þ.e. faghópa 1 og 2, en niðurstöður faghópa 3 og 4 hafi haft lítil áhrif á flokkun einstakra virkjunarkosta og því hafi vægi samfélagslegra og efnahagslegra áhrifa virkjana verið minna en æskilegt væri.

Ég vil víkja sérstaklega að þessu.

Hvað varðar efnahagslega og samfélagslega þætti skiptir miklu skilningur á hvar rammaáætlun er í ákvarðanatökuferlinu um vernd eða nýtingu orkukosta. Rammaáætlun er hagsmunamat um hvaða landsvæði með mögulegum orkukostum skuli leggja til að nýta og hvaða landsvæði skuli njóta verndar.

Hvað varðar efnahagslega þætti má skipta þeim í tvennt, annars vegar stofnkostnað eða hagkvæmni byggingar einstakra virkjana og hins vegar þjóðhagsleg áhrif einstakra orkukosta. Hvað varðar fyrri þáttinn hefur orðið framför í aðferðafræði frá 2. áfanga rammaáætlunar þar sem faghópur 4 hafði það hlutverk að áætla stofnkostnað virkjana og leggja mat á hagkvæmni þeirra. Í upphafi vinnu verkefnisstjórnar 3. áfanga ákvað verkefnisstjórn hins vegar að óska eftir því að Orkustofnun sinnti því verki sem féll undir verksvið faghóps 4 í 2. áfanga, enda var það mat verkefnisstjórnar að þetta væri lögbundið hlutverk Orkustofnunar. Í þessu sambandi er vert að hafa í huga að orkufyrirtæki starfa á samkeppnismarkaði og því eru upplýsingar um áætlaðan kostnað og hagkvæmni einstakra virkjunarkosta alla jafna ekki gerðar opinberar á undirbúningstíma verkefnanna.

Orkustofnun fékk verkfræðistofuna Mannvit til þess að uppfæra kostnaðarflokka frá gerð síðustu rammaáætlunar og færa kostnaðinn að verðlagi í janúar 2014. Orkufyrirtækin voru síðan beðin um að flokka virkjunarkosti sína í kostnaðarflokka í samræmi við það og það sama gerði Orkustofnun fyrir þá virkjunarkosti sem stofnunin sjálf hafði lagt fram til umfjöllunar hjá verkefnisstjórn 3. áfanga. Skilgreindir voru sjö kostnaðarflokkar og lentu flestir virkjunarkostir í flokkum 3–5. Þessi aðferðafræði er því orðin vel mótuð og liggur fyrir.

Hvað varðar þjóðhagslegu áhrifin er um að ræða þætti sem gera það erfitt að taka þá með á þeim stað sem rammaáætlun er í ákvarðanatökuferli stjórnvalda um vernd eða nýtingu orkukosta. Faghópur 4, sem starfaði í 3. áfanga, dró fram eftirfarandi þætti sem sýna að þetta getur verið margslungið í framkvæmd á vettvangi rammaáætlunar:

Í fyrsta lagi liggja ekki fyrir upplýsingar við gerð rammaáætlunar um áætlað orkuverð. Án slíkra forsendna er einfaldlega útilokað að meta þjóðhagslega hagkvæmni einstakra virkjunarkosta. Staðreyndin er sú að þar sem þorri stærri virkjunarframkvæmda er tengdur einstökum orkusölusamningum liggja slíkar upplýsingar ekki fyrir. Þessu tengist auðvitað ýmis önnur óvissa um hvað sé hægt að meta á þessu stigi ákvarðanatöku. Gott dæmi um það er núverandi umræða um stöðu Hellisheiðarvirkjunar þar sem afkastageta hefur reynst minni en upphaflega var ætlað. Hefði verið hægt að meta vænt efnahagsleg áhrif þar? Við vitum nú að niðurstaðan er önnur en fyrst var lagt upp með.

Í öðru lagi er grundvöllur rammaáætlunar mat á ráðstöfun á landsvæðum til verndar annars vegar og nýtingar hins vegar. Ekki liggur fyrir hér á landi neinn almennur grundvöllur fyrir fjárhagslegt mat á virði þess sem kalla má „óverðlagða þjónustu“ náttúrunnar, þ.e. náttúrufegurðin og náttúrufyrirbærin. Hvers virði í fjármunum er Aldeyjarfoss eða okkar íslensku víðerni á tímum þar sem óbyggðum svæðum fækkar um allan heim? Þessari aðferðafræði hefur hins vegar farið fram á undanförnum árum þannig að mögulega getur slíkt í framtíðinni hjálpað inn í ákvarðanatöku í tengslum við vernd eða nýtingu orkukosta.

Í þriðja lagi eru aðstæður ólíkar í tíma og rúmi. Það getur tengst almennu atvinnuástandi í þjóðfélaginu, hugsanlegum byggðasjónarmiðum, orkuöryggissjónarmiðum og slíku. Rammaáætlun er alls ekki falið að fjalla um framangreinda þætti samkvæmt lögum.

Í fjórða lagi hefur verkefnisstjórn rammaáætlunar ekki heimild til að fjalla um raflínur að/frá einstökum virkjunarkostum sem geta haft veruleg áhrif á þjóðhagslega hagkvæmni.

Í ljósi þessa mat faghópur 4 sjálfur það svo að ekki væru forsendur til að raða virkjunarkostum sem fjallað er um í 3. áfanga rammaáætlunar eftir þjóðhagslegu framlagi þeirra. Það er sama niðurstaða og varð í 2. áfanga. Hins vegar hefur verið bent á að hugsanlega ætti að innleiða ákvæði um kostnaðar-/ábatagreiningu síðar í ferlinu að lokinni afgreiðslu rammaáætlunar og gæti það verið í tengslum við vinnu við mat á umhverfisáhrifum framkvæmda og að því finnst mér mjög verðugt að vinna.

Aðferðafræði við að raða virkjunarkostum eftir samfélagslegum áhrifum þeirra er enn skemmra á veg komin. Að því sögðu tel ég mikilvægt að í næsta áfanga rammaáætlunar, sem hefst síðar í þessum mánuði, þurfi að leggja áherslu á þróa enn frekar þá aðferðafræði og vinnu sem er á hendi faghópa 3 og 4.

Í framhaldi af þessu vil ég ítreka hversu mikilvægt stjórntæki rammaáætlun er fyrir ákvarðanatöku stjórnvalda um mikla hagsmuni og málefni sem valdið hafa miklum átökum í okkar samfélagi. Það er nefnilega mikilvægt að tapa ekki sjónum af því að rammaáætlun er ætlað að leggja stóru línurnar fyrir áform stjórnvalda um vernd og nýtingu orkukosta. Hún á þannig að gefa ákveðna heildarmynd en á ekki fara niður á það stig að fara í of ítarlegar greiningar á smærri atriðum.

Að lokum vil ég nefna að tillagan, sem ég mæli hér fyrir, er í senn öflug orkunýtingaráætlun á sama tíma og hún er metnaðarfull verndaráætlun. Hún er jafnframt varfærin og leggur ekki til flokkun margra nýrra orkukosta til viðbótar því sem lá fyrir í 2. áfanga. Lagt er til í þessum 3. áfanga að um 660 MW bætist í nýtingarflokk. Það leggst ofan á þau 93 MW sem Hvammsvirkjun getur aflað og Alþingi hefur fært í orkunýtingarflokk og ofan á þau 670 MW sem sett voru samþykkt í nýtingarflokk í 2. áfanga. Þannig fela 2. og 3. áfangi í sér mikla möguleika til orkuöflunar, rúmlega 1.400 MW. Til samanburðar vil ég benda á að uppsett afl allra núverandi virkjana á Íslandi er 2.500 MW. Á sama tíma er lagt til að mörg mikilvæg svæði verði sett í vernd. Þannig er mjög gott jafnvægi í þessum tillögum milli sjónarmiða verndunar og nýtingar ef það er mælt í orkueiningum en verndarflokkur og nýtingarflokkur eru nokkurn veginn jafn stórir í þessum tillögum.

Svo er ánægjulegt að þrátt fyrir að hér sé um öfluga orkunýtingaráætlun að ræða samrýmist þessi verndaráætlun einnig vel áætlunum ríkisstjórnar um að vinna að sérstakri vernd miðhálendisins. Tillagan er þannig ákveðin málamiðlun til að leita jafnvægis, enn og aftur, milli sjónarmiða verndar og nýtingar. Að auki er í tillögunni stór biðflokkur þar sem er að finna virkjunarkosti sem lagt er til að skoðaðir séu betur í framtíðinni. (Forseti hringir.) Ég tel í raun gott að við stígum varfærin skref þegar um er að ræða framtíðarnýtingu landsvæða, hagsmunamat breytist og við vitum ekki hvernig staðan verður eftir fimm eða tíu ár. Sjálfbær nýting og þarfir framtíðarkynslóða þurfa að vera í forgrunni.

Ég legg eindregið til að Alþingi samþykki tillöguna óbreytta og legg til að tillögunni verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar.