146. löggjafarþing — 40. fundur,  7. mars 2017.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

207. mál
[15:24]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna. Hún sagði í raun og veru algjörlega skýrt að ekki væri búið að ljúka skoðun á samfélagslegum áhrifum, sú aðferðafræði væri ekki nægjanlega þróuð þannig að samfélagsleg áhrif af þessum framkvæmdum lægju ekki fyrir. Eigi að síður er hér lagðir til ákveðnar framkvæmdir og það má rökstyðja t.d. þegar kemur að biðflokknum að þar þurfi þá að bíða því að ákveðin gögn vanti, en þegar um er að ræða að setja framkvæmdir í nýtingarflokk með samfélagsleg áhrif ókönnuð hljótum við að staldra við og velta fyrir okkur hvað það þýðir, því að í raun og veru kemur Alþingi ekki aftur að ákvarðanatöku í þessu máli. Þegar framkvæmd eða virkjunarkostur hefur verið settur í nýtingarflokk er vissulega ráðist í umhverfismat, það er ekki ákvörðun heldur tæki til þess að meta umhverfisáhrif, en þá erum við í raun og veru búin að taka ákveðna ákvörðun sem væntanlega verður ekki aftur snúið með, svo fremi sem vilji er til að framkvæma.

Ég vitna þá sérstaklega til Þjórsárvirkjana þar sem hefur verið mikil umræða að undanförnu. Þar er til að mynda komið fram nýtt atvinnuþróunarfélag, Gjálp, þar sem kemur saman ungt fólk á þessu svæði sem sér fyrir sér aðra þróun samfélagsins en þá sem mótast af nýjum virkjunum í Þjórsá, aðra framtíð sem byggir meira á nýsköpun, ferðaþjónustu. Hópur ungs fólks, ekki á vegum atvinnuþróunarfélagsins eftir því sem mér skilst heldur er bara hópur ungs fólks, alls 110 manns, skrifaði undir áskorun til stjórnvalda um að gefa þessu máli betri gaum og rannsaka samfélagsáhrifin betur.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra. Það kom alveg réttilega fram hjá henni að það er mikilvægt að ná sem mestri sátt. Það þýðir að allir þurfa að gefa eitthvað eftir þegar við samþykkjum hlut á borð við rammaáætlun. Eigi að síður er vitað að samfélagsleg áhrif eru ekki nægjanlega könnuð og við skynjum þá strauma sem eru í gangi í umræðunni til að mynda í nærumhverfinu (Forseti hringir.) á þessu svæði. Hvernig telur hæstv. ráðherra að unnt sé að bregðast við umræðunni í nærumhverfi Þjórsár?