146. löggjafarþing — 40. fundur,  7. mars 2017.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

207. mál
[15:27]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Björt Ólafsdóttir) (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka andsvarið. Við erum með sama skilning á því sem ég var að segja, ólíkt því sem gerðist áðan í andsvari við hv. þingmann. Þessi samfélagslegu áhrif hafa ekki verið fullkönnuð. Nú leggja menn mismunandi skilning í það og sumir segja: Jæja, ef þau hefðu verið könnuð hefði niðurstaðan örugglega verið svona. Svo getur það verið algjörlega öfugt. Það fer eftir því hver talar hvaða samfélagslegu áhrif viðkomandi sér fyrir sjálfan sig og umhverfi sitt.

Varðandi þau atriði sem hv. þingmaður nefndi, til að mynda Gjálp og þá aðila sem vilja vernd í Þjórsá út af samfélagslegu áhrifum, af því að þetta eyðileggur fyrir þeim þá samfélagslegu sýn sem þeir hafa fyrir svæðið, þá er það rétt að erfitt er að vega og meta hvaða sýn er nákvæmlega samfélagslega sýnin. Ég veit ekki hvort ég geri mig skiljanlega hvað þetta varðar.

Ég legg þetta fram í þinglega meðferð. Hér verður farið yfir umsóknir og væntanlega verður mikið af heimsóknum í umhverfis- og samgöngunefnd þar sem þingmenn geta metið hvort þeim þykja þau rök sem þar koma fram svo mikilvæg að þeir vilji eitthvað skoða hlutina betur. Aðstæður breytast í tíma og rúmi. Það er mismunandi hvaða áherslur við setjum á hvaða tíma. Ég skil vel þá aðila sem hv. þingmaður nefndi áðan, ég skil vel að sýn þeirra á samfélagið feli ekki í sér þessar virkjanir í Þjórsá. Ég skil líka hina sýnina þar (Forseti hringir.) sem er talað um Þjórsá sem stærsta batterí Íslands, ef svo má segja, og að það sé samfélagslega hagkvæmt á þann veginn að virkja þar.