146. löggjafarþing — 40. fundur,  7. mars 2017.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

207. mál
[15:29]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Þarna erum við komin að mjög mikilvægri ábendingu. Samfélagið hefur breyst mjög mikið frá því að ráðist var hér til að mynda í fyrstu uppbyggingu stóriðju, sem hæstv. ráðherra hefur orðið tíðrætt um. Það eru önnur atvinnutækifæri núna sem heilla unga fólkið í þessu landi, atvinnutækifæri sem til að mynda sá félagsskapur sem ég nefndi áðan, Gjálp, hefur verið að beita sér fyrir á sviði ferðaþjónustu, nýsköpunar og hugvits, atvinnutækifæri sem krefjast ekki endilega mikillar raforku en krefjast þess að við höldum í þau verðmæti sem felast í landinu. Ég legg því ríka áherslu á að þessi þáttur, samfélagslegu áhrifin, verði skoðaður ítarlega í hv. umhverfis- og samgöngunefnd.

Ég vil nota tímann, ég gæti rætt þetta lengi, í seinna andsvari mínu til að spyrja hæstv. ráðherra um annað. Það eru auðvitað þau áhrif sem lúta beint að verksviði hæstv. ráðherra þegar kemur að verndun lýðfræðilegrar fjölbreytni. Þá er ég að vitna til villta laxastofnsins en gerðar hafa verið verulegar athugasemdir við það að áhrifin af Þjórsárvirkjun á villta laxastofninn hafi alls ekki verið fullkönnuð.

Eins og við þekkjum er, að mér skilst, a.m.k. tel ég að svo sé, enn í gildi mjög gamalt umhverfismat fyrir þessar virkjanir eða hluta þessara virkjana. Það hefur verið kært til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála m.a. vegna þess að þar hefur ekki verið tekið tillit til villta laxastofnsins. Aftur kem ég að sömu spurningu. Við sem þingmenn þurfum að taka afstöðu til þess að setja virkjunarkosti í verndarflokk, biðflokk og nýtingarflokk. Nýtingarflokkurinn er í raun og sann það eina sem kalla má óafturkræft. Þar með tökum við ákvörðun sem varðar líffræðilega fjölbreytni í íslensku lífkerfi, þ.e. villta laxinn, þar sem hefur verið bent á að ekki sé búið að fullkanna þau áhrif sem virkjanirnar hafi á villta laxastofninn.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Telur hún þessi áhrif fullkönnuð út frá þeirri tillögu sem hér liggur? Ef ekki, (Forseti hringir.) hvað hyggst hún gera til þess að tryggja að við verndum (Forseti hringir.) þennan stofn sem er ekki bara umhverfislega mikilvægur, í honum eru auðvitað líka mikil efnahagsleg verðmæti?