146. löggjafarþing — 40. fundur,  7. mars 2017.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

207. mál
[15:46]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. umhverfisráðherra andsvarið. Ég hygg að svona í stóru línunum séum við ekki allt of ósammála, sérstaklega ekki þegar kemur að því að sjá hvað í raun liggur fyrir, hvert verkefnið er. Það sem ég var að velta hér upp varðandi það að leggja fram núna strax þessa tillögu óbreytta er, eins og ég kom inn á í máli mínu, að beita þurfti sérstakri flýtimeðferð við vinnuna á síðasta kjörtímabili. Formaður verkefnisstjórnar hefur dregið í efa að sú nálgun hafi verið í anda laganna. Það hafi beinlínis stangast á við lögin um rammaáætlun að henda inn virkjunarkostum sem þyrfti að skoða í snarhasti. Hluti af þeim virkjunarkostum eru akkúrat þeir kostir sem við erum að horfa á hér í neðri hluta Þjórsár. Hæstv. umhverfisráðherra viðurkennir að ekki sé að fullu ljóst hvernig eigi að tryggja að það hafi ekki áhrif á villta laxastofninn í ánni. Ef það er ekki að fullu ljóst hvernig eigi að tryggja hvernig virkjunarkostur hefur áhrif á villtan laxastofn þá þykir mér menn komnir örlítið fram úr sér ef sá kostur er kominn í nýtingarflokk. Mér finnst þetta, eins og ég kom inn á áðan, uppskriftin að því að slíkir kostir ættu að vera í biðflokki. Það þurfi einfaldlega frekari rannsókna við fremur en að treysta á að það finnist einhver lausn, hver sem hún verði, þegar kemur að framkvæmdaleyfinu. Ég átta mig á að við það eitt að kostur fari í nýtingarflokk þá sé ekki komin virkjun þar næsta vor. En það er engu að síður pólitísk stefnumótun (Forseti hringir.) Alþingis og stjórnvalda um hvar eigi að virkja.