146. löggjafarþing — 40. fundur,  7. mars 2017.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

207. mál
[16:00]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Við erum farin að fjalla um rammaáætlun enn einu sinni hér í þinginu. Það er mikill misskilningur á ferð varðandi rammaáætlun þegar menn tala um hana eins og eitthvert friðarplagg, eins og um hana hafi ríkt sátt og muni ríkja sátt. Það er vitanlega alls ekki þannig. Frá því að rammaáætlun kom fram hefur ríkt um hana ósætti. Menn hafa deilt um vinnubrögð, aðferðafræði o.s.frv. Síðan hafa stjórnmálamenn stundum verið að fikta í henni, færa til virkjunarkosti o.s.frv. Ekki er það endilega til að auka trúverðugleika, í það minnsta ekki hjá sumum.

Fyrir mér er mikilvægt að við veltum fyrir okkur: Þessi aðferðafræði, það plagg sem við vinnum með hér, er hún ekki komin út af borðinu? Er ekki kominn tími til að gera eitthvað annað? Ég held það. Ég held að tilraunastarfsemin sem hefur verið um rammaáætlun sé fullreynd. Það mun ekkert verða nein sátt um þetta eins og verklaginu hefur verið háttað fram að þessu.

Ég velti líka fyrir mér hvers vegna rammaáætlun er komin inn í þingið. Ég efast um að hún standist þær kröfur sem Alþingi á að gera til þingsályktunar og plagga sem koma hér inn til okkar. Ég fæ ekki betur séð, og var nú að reyna að spyrja hæstv. ráðherra að því í dag, en að ekki sé farið að lögum varðandi þessa rammaáætlun. Það stendur í lögum að verkefnisstjórn skuli fara yfir þá orkukosti sem Orkustofnun vísar til hennar. Af 82 kostum er eingöngu fjallað um 27. Ég var að reyna að spyrja ráðherrann hér áðan hvar sú lagastoð væri að hverfa frá þessu. Það kom ekkert svar við því.

Verkefnisstjórnin gerir ýmislegt annað — eða gerir kannski ekki ákveðna hluti. Í umsögn Orkustofnunar er til dæmis farið lofsamlegum orðum um faghóp 3 sem fjallaði um samfélagsleg áhrif. En verkefnastjórnin kýs hins vegar að taka ekki tillit til þeirra í umfjöllun sinni eða ákvarðanatöku. Við erum komin á þann stað að við þurfum að velta fyrir okkur hvort við þurfum hreinlega að taka upp nýtt ferli, horfa e.t.v. til Norðmanna aftur. Við horfðum til Norðmanna þegar við fórum af stað með þetta bix allt saman. Nú eru Norðmenn að hverfa frá því að nota rammaáætlun, ætla sér að taka upp annað system þar. Eru raunar farnir að tala um að „afvinkla“, ef maður slettir frekar slælega, sína rammaáætlun. Vel kann að vera að þar sé önnur lagaumgjörð sem geri þeim auðveldara að fara þá leið, t.d. vatnalög og þess háttar; ég hef ekki kafað nógu grundigt í það, svo að ég segi það nú, herra forseti.

Það blasir við að við þurfum að fara yfir þetta mál hér í þinginu fyrst það er komið inn og fyrst Alþingi taldi að það væri tækt. Ég held að þetta sé ekki tækt hér inn. Ég held einfaldlega að vinnubrögðin séu með þeim hætti að þetta eigi ekki heima hér hjá okkur. Fyrir utan það veit ég ekki betur en að í lögunum standi að meta eigi sérstaklega og taka tillit til samfélagslegra og efnahagslegra þátta. Það hefur komið fram, og kom raunar fram í ræðu ráðherra hér í dag, að það var ekki gert. Þá veltir maður fyrir sér: Hvernig er hægt að komast að niðurstöðu ef þú skoðar ekki alla þá þætti sem þér ber að skoða? Hvernig er hægt að raða svona upp ef þú kýst að ýta til hliðar ákveðnum hlutum? Er verið að horfa á efnahagslegu þættina, t.d. ef við myndum nú með einhverri virkjun sem þarna er geta uppfyllt þarfir sólarkísilverksmiðju Grundartanga sem er fjárfesting fyrir 100 milljarða, ef ég man rétt, skapar 300–400 manns atvinnu og er innan mengunarviðmiða og þarf ekki umhverfismat svo að dæmi sé tekið? Er það ekki slík starfsemi sem við viljum? Það er ekki til orka í hana. Því að hér var talað um að menn vissu ekki hvað þeir ættu að gera við rafmagnið. Það vantar 15–25 MW til þess að hægt sé að staðfesta þetta allt saman.

Við hljótum því að þurfa að spyrja okkur margra spurninga í þessu.

Ég ætla hér aðeins að grípa niður í athugasemdir Orkustofnunar vegna draga að þessari skýrslu eða tillögu. Ég er með útdrátt úr þessu því að skýrsla eða athugasemdarýni Orkustofnunar tekur yfir 100 bls. Ég ætla að leyfa mér að segja að þessi rammaáætlun er tætt niður. Farið er mjög vel í gegnum það hvar rökstuðning vantar, hvar lagaheimildir vantar o.s.frv. Það er í raun ekki gott að við séum á þeim stað að vera að tala um þetta mikilvæga plagg, sem þetta vissulega átti að vera, en er að mínu viti allt annað en mikilvægt í dag.

Ég ætla að leyfa mér, herra forseti, að grípa hér niður í það sem kallast bréf, sem eru athugasemdir Orkustofnunar vegna draga að lokaskýrslu verkefnisstjórnar. Þar segir, með leyfi forseta:

„Stofnunin lýsir sérstökum áhyggjum vegna þess að ljóst er að í vinnu verkefnisstjórnar hefur algerlega verið horft fram hjá mörgum afar mikilvægum þáttum, svo sem framlagi Íslands til þess að draga úr koltvísýringi í andrúmslofti á heimsvísu með nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa, nauðsynlegu orkuöryggi á Íslandi, áhrifum á samfélag og efnahag, möguleikum einstakra byggðarlaga til orkuskipta og uppbyggingar og þannig mætti lengi telja.“

Þegar maður fer að lesa þetta nánar og rýna í þessa tillögu verkefnisstjórnar finnst manni þetta í raun allt rétt. Það er heldur ekkert verið að horfa til þess hvert framlag Íslands getur verið til endurnýjanlegrar orku á heimsvísu sem er hluti af því sem Norðmenn rökstyðja með sinni breytingartillögu. Þeir segja: Okkur ber að nýta auðlindir okkar til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu. Okkur ber líka að nýta þær til að efla efnahag og atvinnulíf í Noregi. Okkur ber að nota þær til að styrka samfélagið og samfélagsgerðina í Noregi.

Ég ætla að leyfa mér, sem kemur kannski engum á óvart hér, að hverfa aðeins til minna heimahaga, norður í Skagafjörð, þar sem verkefnisstjórnin kemst einhvern veginn í ósköpunum að þeirri niðurstöðu að setja mögulegu virkjanirnar í Skagafirði í verndarflokk. Fyrir okkur sem þar búum er það dálítið sérkennilegt; ekki öllum að sjálfsögðu, ég get ekki talað fyrir alla því að vissulega eru margir í Skagafirði annarrar skoðunar en ég á þessu, ég tek það fram hér. En ef farið er að meta það þannig að flúðasiglingar og hestaferðir séu verðmætasta atvinnusköpun sem til er í Skagafirði hrekkur maður nú aðeins við. Það er ýmislegt annað í boði í dag og hægt að fara í. Ég ætla að grípa hér, með leyfi forseta, niður í rýni frá Orkustofnun. Þar segir:

„Mat faghópa 1 og 2 á áhrifum virkjunarkosta á mismunandi verðmæti er að því er virðist huglægt og órökstutt og það skortir á að gera grein fyrir því hver áhrifin gætu mögulega verið. Til dæmis má nefna að sett er fram tölugildi þess efnis að verðmæti hestaferða um Skagafjarðardali rýrni úr 10 niður í 3 vegna Skatastaðavirkjunarkostanna beggja. Þessi einkunnagjöf kemur ekki fram í skýrslunni sjálfri en er til staðar í undirliggjandi gögnum sem Orkustofnun kallaði eftir. Ekki kemur fram hvað það er sem veldur þessari gríðarlegu virðisrýrnun.“

Það vantar rökstuðninginn fyrir því hvers vegna svona mikil virðisrýrnun á þessum ferðum verður til. Hafa menn ekkert velt því fyrir sér að kannski er það bara þannig, eins og við höfum séð t.d. fyrir austan og á fleiri stöðum þar sem virkjað hefur verið, að það opnar nýja möguleika í ferðaþjónustu? Er það ekki rétt munað hjá mér að í einhverjum af þeim gögnum sem við höfum séð er einhver virkjun metin á fjóra og hálfa stjörnu á Tripadvisor, fimm er hámarkið, sem frábær staður fyrir ferðamenn að heimsækja? Ég man ekki nafnið á þessari virkjun en ég las þetta í gær.

Mig langaði síðan aðeins að halda áfram og grípa niður í skrif Orkustofnunar:

„Algerlega vantar að aðrir fletir séu skoðaðir, þ.e. hvaða jákvæðu áhrif virkjun getur haft í för með sér, einnig fyrir þá þætti sem faghópar 1 og 2 fjalla um, t.d. á hestaferðir um Skagafjarðardali. Einnig vantar umfjöllun um hvaða þjóðhagslegu áhrif virkjun eða verndun hefur staðbundið og á landsvísu.“

Það er sem sagt þannig að þeir sem mest vit hafa á þessu, vil ég leyfa mér að segja, sem er Orkustofnun, tæta þetta hreinlega í sig. Það stendur ekki, að mínu viti, steinn yfir steini varðandi niðurstöðu verkefnisstjórnar. Því miður. Ég hef velt því fyrir mér hvað valdi. Kannski er það pressan frá okkur að verkefnisstjórnin skili niðurstöðu, kannski er það tímaleysi til að vinna þetta betur. Það eru hlutir sem maður veltir eðlilega fyrir sér. Því að allt er þetta frábært og gott fólk sem vinnur þarna. Maður veltir fyrir sér hvað geri að verkum að þetta endar með þessum hætti.

Ég held að kominn sé tími til að velta fyrir sér hvort við eigum einfaldlega að láta þetta gott heita, segja að sú tilraun sem rammaáætlun hefur allt of lengi verið hafi runnið sitt skeið á enda. Við þurfum að gera eitthvað nýtt sem kannski er möguleiki á að ná einhverri sátt um. Engin sátt er um þetta, því miður, og hefur ekki verið.