146. löggjafarþing — 40. fundur,  7. mars 2017.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

207. mál
[16:12]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil bara þakka hæstv. ráðherra fyrir að skýra það að ráðherrann telur sem sagt og fullyrðir að verkefnisstjórn ráði því algerlega sjálf hvaða kosti hún tekur til umfjöllunar. Hún þarf sem sagt ekki að fjalla um þá kosti sem Orkustofnun beinir til hennar að fjalla um. Ef ég hef misskilið það er það hér með leiðrétt. En ég er kannski ekki alveg viss um að þetta sé svona einfalt. Mig langar að spyrja ráðherrann hvort hún telji að verkefnisstjórnin hafi uppfyllt allar lagalegar skuldbindingar sem henni ber, þar á meðal, eins og ég hef skilið þessi lög og menn sem eru aðeins fróðari en ég í þessu öllu saman, að verkefnisstjórninni beri að taka tillit til efnahagslegra og samfélagslegra þátta. Það er farið að öllum lögum varðandi þetta að mati ráðherrans?