146. löggjafarþing — 40. fundur,  7. mars 2017.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

207. mál
[16:22]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það hefur verið áhugavert að fylgjast með þessum umræðum um rammaáætlun hingað til. Það er sér í lagi upplýsandi og mikilvægt að hlusta á þá tala sem greinilega eru manni annaðhvort ósammála eða nálgast málin frá einhverju allt öðru sjónarhorni en maður sjálfur. Það er mjög mikilvægt í lýðræðislegu samfélagi að nálgast málin þannig. Þess vegna hlustaði ég full áhuga á ræðu hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar.

Það fyrsta sem sló mig var þegar hv. þingmaður velti því upp og spurði hvort það væri fullreynt með rammaáætlun. Það sem ég heyrði hins vegar ekki eða skildi ekki þá í máli þingmannsins og langar að spyrja hann út í er: Hvaða leið sér hv. þingmaður fyrir sér að ætti að fara? Ég held að við getum alveg verið sammála um að þetta er kannski ekki hið fullkomna ferli, einmitt vegna þess að við lítum á málin út frá ólíkum sjónarhornum. En ég hef reyndar talið að við séum hérna komin í átt að einhverju betra, þ.e. að reyna að nálgast hlutina heildstætt.

Mig langar því að spyrja hv. þingmann hvort hann vilji þá aftur fara í gamla farið, þ.e. að skoða bara hvern einasta virkjunarkost stakan en ekki reyna að setja þá upp í þessa þrjá flokka eins og verið er að gera í rammaáætlun. Eða hvaða aðra leið telur þingmaðurinn vera besta til að ná utan um þessi mál? Ég held að ekki verði hjá því komist að Ísland móti sér einhverja stefnu. Við verðum að finna einhverja leið til að nálgast þessi mál. Ef rammaáætlun gengur ekki að mati hv. þingmanns, hvað leggur hann þá til málanna? Hvernig eigum við að gera þetta?