146. löggjafarþing — 40. fundur,  7. mars 2017.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

207. mál
[16:29]
Horfa

Nichole Leigh Mosty (Bf):

Virðulegi forseti. Hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra leggur hér fyrir tillögu til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða. Eins og ráðherra nefndi er vinna rammaáætlunar viðkvæm að mörgu leyti. Að mínu mati hefur verið staðið faglega að því ferli sem rammaáætlun er, alla vega það sem ég hef kynnt mér örlítið í þessari 320 blaðsíðna skýrslu sem um er að ræða. Það á einnig við um vinnu verkefnisstjórnar og faghópa. Það er mikilvægt fyrir okkur þingmenn að muna að hugmyndafræðin á bak við rammaáætlun er m.a. sú að draga úr átökum um einstaka virkjunarhugmyndir.

Ég tek undir með hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra að við þurfum þar af leiðandi að horfa til þess að rammaáætlun snýst um að meta faglega möguleika á vernd og nýtingu með sjálfbærni í huga, þar sem m.a. er horft til þess að leggja stóru línurnar fyrir áform stjórnvalda um vernd og nýtingu orkuhugmynda.

Hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra fór einnig vel yfir hversu mikil áskorun felst í mati á þjóðhagslegum áhrifum á því stigi sem rammaáætlun er ætlað að vinna. Þar skulum við hafa í huga að við þess konar mat þarf að taka með í jöfnuna matið á virði þess að raska ekki náttúrunni, virði þess sem oft er kallað ósnortin eða lítt snortin náttúra. Ég held að við vitum öll að náttúran í sinni hreinustu mynd án mannvirkjagerðar verður sífellt dýrmætari eftir því sem slíkum landsvæðum fækkar.

Það segir einmitt að í rammaáætlun skuli, í samræmi við markmið fyrrnefndra laga, leggja mat á verndar- og orkunýtingargildi landsvæða og efnahagsleg, umhverfisleg og samfélagsleg áhrif nýtingar, þar með talið verndunar. Ég vil leggja áherslu á síðustu orð þessarar setningar, „þar með talið verndunar“. Nýtingin sem felst í náttúruverndinni er nefnilega heilmikil og við erum sífellt betur að átta okkur á því.

Herra forseti. Mig langar sérstaklega að fagna því að sú tillaga sem lögð er fram hérna er í góðu samræmi við þá stefnu þessarar ríkisstjórnar að vinna að vernd miðhálendisins. Á miðhálendi Íslands eru einar stærstu óbyggðir Evrópu. Verndar- og verðgildi óbyggða fer stöðugt vaxandi þar sem óbyggðum svæðum fer hratt fækkandi á heimsvísu. Hér er því um fágæta og takmarkaða auðlind að ræða. Þá eru þrjú gríðarfögur vatnasvið á miðhálendinu; Héraðsvötn, Skjálfandafljót og Skaftá sett í verndarflokk og fá vonandi að renna frjáls áfram.

Tillagan er einnig í ágætu samræmi við þá stefnumörkun stjórnvalda um sjálfbæra þróun í íslensku samfélagi sem var samþykkt 2002 og endurskoðuð 2010 að leggja skuli áherslu á að stór samfelld víðerni verði áfram að finna í óbyggðum Íslands. Möguleikar á frekari nýtingu orkuauðlindanna eru þó alls ekki skertir með þessari áætlun því að samkvæmt henni eru virkjunarkostir í nýtingarflokki sem gefa samtals um 1.400 megavött. Þá er gott að hafa í huga að árleg þörf á raforkuframleiðslu til almennrar notkunar er örfá megavött, kannski 7–9. Gagnaver og minni fyrirtæki þurfa heldur ekki mörg megavött til að knýja sína starfsemi. Og ég endurtek, í nýtingarflokki eru 1.400 megavött. Eins og hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra sagði áðan, það er ekki þörf, það liggur hér fyrir.

Herra forseti. Höfum þetta í huga og höfum líka í huga rétt komandi kynslóða til að ákveða hvað eigi að gera í þessum málum.

Hér vil ég stoppa aðeins af því að í dag vorum við þó nokkrir þingmenn að leggja nafn okkar við það orð að vera talsmenn barnanna, um það að við ættum að taka til máls og hugsa um komandi kynslóðir. Ég tel að með þessari rammaáætlun séum við að láta í ljós hug okkar varðandi rétt komandi kynslóða til að ákveða hvað eigi að gera í þessum málum þegar við afgreiðum þingsályktun um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.