146. löggjafarþing — 40. fundur,  7. mars 2017.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

207. mál
[16:43]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Rétt aðeins um orð hv. síðasta þingmanns um jarðhitann. Vitnað er í álitsgerð Landverndar, heyrði ég. Ég held að það sé ofsögum sagt að jarðvísindamenn séu almennt sammála um að vinnsla á jarðháhitasvæðum sé ósjálfbær. Það eru nokkur hundruð jarðvísindamenn á Íslandi og það eru vissulega skiptar skoðanir en það er mikill minni hluti sem telur háhitasvæði eða vinnslu á þeim þurfa nauðsynlega að vera ósjálfbæra vegna þess að þetta snýst jú um forðafræði, um hvernig virkjað er. Það er hægt að horfa til mistakanna sem voru gerðar á Hellisheiðarvirkjun. Það var farið allt of hratt í þá virkjun vegna þess að menn sáust ekki fyrir í uppbyggingunni og hagnaðarvon sem þar var. Það er þannig með háhitasvæði að þau eru öll kynt af kviku. Til langs tíma koma ný kvikuinnskot. Það gerðist á Reykjanesi 1967, það gerðist í Henglinum 1999, það gerðist í Kröflu á ári Kröflueldanna, þetta er allt endurnýjun. Grímsvötnin, sem eru þó undir ís, þetta er allt endurnýjun á varmaforðanum. Við skulum því fara mjög varlega í að fjalla um háhitasvæði með þessum hætti.

Varðandi mengunina eru þetta jú eldfjallagös sem koma upp í öllum eldgosum, þau koma upp í öllum háhitasvæðum landsins. Þau leita út í grunnvatnið hvort eð er af náttúrulegum orsökum. Það sem menn reyna þá að gera en hafa kannski ekki gert í nægilegum mæli, það hefur skort tækni til þess, er að binda þessi gös og dæla affallsvatni niður í jarðveginn. Með því móti er hægt að koma í veg fyrir óþægilega mengun eða mengun sem ógnar heilbrigði, með því að dæla t.d. brennisteinsvetni uppleystu í vatni ásamt affallsvatni niður í jarðhitageymana. Það er meira að segja partur af forðafræðinni.

Ég vil fara mjög varlega í staðhæfingar eða alhæfingar um skaða af völdum jarðhitavirkjana. En um vindorkuna er ég að sumu leyti sammála síðasta ræðumanni.