146. löggjafarþing — 40. fundur,  7. mars 2017.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

207. mál
[16:45]
Horfa

Einar Brynjólfsson (P) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni andsvar. Það má vera að ég hafi farið fram úr mér í máli mínu áðan. Það er hins vegar staðreynd að það dó manneskja á Reykjanesi um daginn. Þarna er um að ræða hættuleg efni. Ég átta mig ekki alveg á því hversu langt við erum komin í þeim fræðum öllum. Þingmaðurinn talar um forðafræði. Ég er ekki jarðvísindamaður, svo mikið er víst, en sem leikmaður verð ég var við allt það basl og allt það vesen sem hefur fylgt þessum virkjunum á þeim stað sem um ræðir á Reykjanesi, og reyndar víðar. Fyrir mig sem leikmann er þetta allt saman, svo ekki sé meira sagt, svolítið „risky business“, með leyfi forseta.