146. löggjafarþing — 40. fundur,  7. mars 2017.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

207. mál
[16:46]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Nú eru nokkrar háhitavirkjanir á landinu. Í Kröflu vil ég ekki meina að hafi verið stór vandræði á ferð, fyrir utan það sem gerðist í jarðsögunni og olli vandræðum sem voru svo sem ekki manngerð. Á Reykjanesi vil ég heldur ekki meina að það hafi orðið nein vandræði. Við getum ekki tekið þetta einangraða tilvik þar sem varð hörmulegt dauðaslys. Þar var borhola við hliðina á annarri og leki á milli borhola og það er auðvitað einstakt tilvik. Eina jarðhitavirkjunin þar sem virkilega hafa verið vandræði er Hellisheiðarvirkjun. Svartsengisvirkjun hefur gengið ágætlega og Auðlindagarðurinn hefur sýnt fram á hversu langt er hægt að ganga. Vandræðin vegna jarðhitavirkjana eru því að mínu mati blásin upp, þau eru ekki raunveruleg nema að litlu leyti. Við tökum auðvitað á þeim vandræðum mjög skýrt og skilmerkilega.

En forðafræði er vísindagrein sem Íslendingar flytja út og hefur reynst vel. Ég held að ef menn hefðu hlustað á bestu forðafræðinga landsins hefði það sem gerðist á Hellisheiði ekki orðið staðreynd. Nú er verið að bjarga þeirri virkjun með því að leiða gufu frá nálægum borsvæðum sem gerir að verkum að þar verða ekki reistar virkjanir og það er bara gott og blessað vegna þess að lærdómurinn er þessi: Það þarf að virkja í skrefum og sjá til þess að umhverfisáhrif þessara virkjana séu lágmörkuð. Flóknara er það ekki, þótt það geti í sjálfu sér verið flókið vísindalega.