146. löggjafarþing — 40. fundur,  7. mars 2017.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

207. mál
[17:00]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég veit að hann þekkir málið býsna vel, hefur ritað um það og rætt í langan tíma. Þess vegna var áhugavert að hlusta á ræðu hans. Ég biðst nú afsökunar að ég datt aðeins út í umræðunni áðan þegar einhverjir þingmenn komu upp, en mig langaði að heyra betur frá þingmanninum hvað hann meinti þegar hann nefndi að honum fyndist málið vera vanreifað. Ég skildi hann ekki betur en svo að hann hefði trú á þessari vinnu sem átt hefði sér stað. Ég velti fyrir mér hvað hv. þingmaður leggur þá til. Skildi ég hann rétt að hann leggi til að við afgreiðum ekki þessa þingsályktunartillögu sem rammaáætlun þrátt fyrir að ráðherra hafi lagt hana fram? Svo langar mig að taka undir með hv. þingmanni að ég held að sé skynsamlegt að hv. atvinnuveganefnd þingsins fái líka málið til umsagnar.