146. löggjafarþing — 40. fundur,  7. mars 2017.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

207. mál
[17:05]
Horfa

Teitur Björn Einarsson (S):

Frú forseti. Það er mjög þýðingarmikið að þetta mál sé komið til þingsins. Ég þakka hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra fyrir framsögu hennar, þar kom margt áhugavert fram og nytsamlegt fyrir áframhald umræðunnar en reyndar hjó ég sérstaklega eftir að hæstv. ráðherra vísaði til þess að nú er þingið með þetta mál og það fer til þinglegrar meðferðar. Þetta skiptir máli, það skiptir máli að þingið hafi tök á því að taka jafn viðamikið og brýnt mál, ef svo má segja, og skoði það ofan í kjölinn, fari yfir umgjörðina sem málinu hefur verið búin, skoði hvaða efnisatriði liggja til grundvallar þeim flokkunum sem eru þarna undir og komist að endingu að niðurstöðu. Ef þingið er ekki í stakk búið eða hefur ekki burði til þess að komast að niðurstöðu, leiða málið til lykta, þá erum við í vanda stödd, þá erum við á þeim stað að þurfa mögulega að taka alla þessa löggjöf jafnvel upp með rótum og endurskoða hvað það er í umgjörðinni allri og lögunum sem þarf að bæta og laga til þess að þingið geti komist að niðurstöðu.

Að sjálfsögðu, eins og kom fram í máli hæstv. ráðherra, eru um þetta mál skiptar skoðanir. Það verða ekki allir á eitt sáttir við þá flokkun sem hér er lögð til, það eru örugglega uppi ágæt sjónarmið um að sumt sem er í nýtingarflokki eigi ekki að vera þar og það eru líka til mjög góð og gild rök fyrir því að sumt sem er í virkjunarflokki eigi ekki að vera þar. Þetta verður þá verkefni þingsins núna að skoða vandlega.

Það þarf ekki að vera sátt um alla þessa hluti, hún mun sennilega aldrei nást, en það sem þarf sennilega að vera sátt um er að komast að niðurstöðu, að við getum haldið áfram á þeirri vegferð sem hefur verið mörkuð á síðustu 20 árum eða svo. Við höfum farið um langan veg síðan lög voru sett á seinni hluta 10. áratugar síðustu aldar um að meta einmitt þetta jafnvægi á milli verndunar og nýtingar. Við höfum farið um langan veg og ég er þeirrar skoðunar að það sé vel hægt að taka þau atriði í þessari tillögu sem hægt er að leiða til lykta og klára þau mál en mögulega skilja menn svo við málið þannig að sumt endar í biðflokki sem væri annars í nýtingar- eða verndarflokki, af því að það er allt í lagi að gera það. Sú niðurstaða sem mun fást í afgreiðslu þingsins er ekki endanleg um alla ókomna framtíð. Þvert á móti. Það gangverk í lögunum sem við erum að vinna eftir gerir ráð fyrir því að þær ákvarðanir sem verða teknar verði endurskoðaðar a.m.k. á fjögurra ára fresti.

Frú forseti. Aðeins um efnisatriði tillögunnar án þess þó að fara ofan í einstaka virkjunarflokka. Það er ekki hægt á svona skömmum tíma, það bíður meðferðar nefndar. Það snýr að því sem fram hefur komið um annars vegar niðurstöðu faghóps 1 og 2 og svo niðurstöðu faghópa 3 og 4. Það virðist, eins og fram hefur komið í máli hæstv. ráðherra og hún gerði grein fyrir því ágætlega í framsöguræðu sinni, að ekki sé nægilega vel byggt á niðurstöðum faghópa 3 og 4 við þessa flokkun. Það kann að vera að það séu ástæður fyrir því en þá vek ég athygli á að á þeim grundvelli sem öll þessi löggjöf byggir á, sem er sjálfbær nýting, þá þarf, ef menn ætla að fylgja þeirri hugmyndafræði eftir alla leið, að taka alla þrjá meginþætti þess til greina. Það er í fyrsta lagi að skoða að sjálfsögðu umhverfisleg áhrif, í öðru lagi hagræn áhrif og í þriðja lagi samfélagsleg og félagsleg áhrif. Þessir þrír þættir mynda að meginstefnu til þann grundvöll sem menn byggja alla skoðun sem á að vera sjálfbær þróun eða sjálfbærar tillögur í þessum efnum.

Það kann að vera eins og segir í niðurstöðu faghóps 4 að ekki séu forsendur til að meta þjóðhagsleg áhrif. Það kann að vera að ekki sé rétt að svo stöddu að byggja á niðurstöðum faghóps 3 um samfélagsleg áhrif en þá skýtur kannski svolítið skökku við að í hinum faghópunum, 1 og 2, er einn þáttur tekinn út sem er alveg þess virði að meta samhliða öðrum þáttum, þ.e. ferðaþjónusta til að mynda. Við suma virkjunarkosti er lagt mat á hvort það eigi að vernda eða nýta á grundvelli mikilvægis ferðaþjónustunnar sem atvinnugreinar. Auðvitað er ferðaþjónustan líka mikilvæg þegar kemur að nýtingu landgæða og náttúru en ég tel að við þurfum að skoða vandlega hvort það sé tækt að taka eina atvinnugrein sérstaklega fyrir meðan við getum ekki að svo stöddu metið þjóðhagsleg áhrif eða samfélagsleg áhrif af þessum virkjunum. Þetta tel ég vera atriði til að skoða nánar.

Að lokum vil ég nefna að lagt hefur verið til að tillagan fari til hv. umhverfis- og samgöngunefndar og það tel ég vera ágætt mál, en ég tel jafnframt mikilvægt á sama hátt og umhverfis- og auðlindaráðherra ber lögum samkvæmt að hafa samráð við iðnaðar- og orkumálaráðherra um efni þessarar tillögu að umhverfis- og samgöngunefnd og atvinnuveganefnd þingsins hafi mjög náið og gott samráð, samvinnu við að taka efni þessarar tillögu til umfjöllunar. Það kann að vera að þingsköp séu að einhverju leyti stíf en ég tel að málið sé það mikilvægt að hægt sé að finna góðan samstarfsflöt í samstarfi milli þessara tveggja nefnda þingsins og það muni dýpka málið, upplýsa það og gera að verkum að við verðum betur í stakk búin til þess að komast að niðurstöðu.