146. löggjafarþing — 40. fundur,  7. mars 2017.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

207. mál
[17:17]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni stutt og hnitmiðað svar, laggott. Ég er sammála því sem hv. þingmaður segir að auðvitað þarf þetta mál að fá þinglega meðferð. En ég legg mikla áherslu á að sú þinglega vinna verði mjög vönduð. Ég verð að játa að ég sé ekki alveg fyrir mér — þess vegna spurði ég nú hv. þingmann — hvernig, á þeim örfáu mánuðum sem eftir eru af þessu þingi, sú umfangsmikla skoðun sem hv. þingmaður boðar á hverjum kosti fyrir sig á að fara fram.

Svo talar hv. þingmaður um sátt sem þurfi að nást, en segir síðan að náist ekki að ljúka þinglegri meðferð á þessu máli þurfi að skoða hvort rífa þurfi löggjöfina upp með rótum þegar kemur að rammaáætlun. Ég spurði hv. þingmann því hreint út hvenær hann teldi að þeirri umfangsmiklu vinnu sem hann sjálfur kallar eftir myndi ljúka. Hvernig sér hann fyrir sér fundi hjá okkur í umhverfisnefnd ef við þurfum að fara ofan í hvern einasta kost; kalla væntanlega til okkar sérfræðinga um hvern kost og ræða þau mál? Hvenær sér hann fyrir sér að þeirri vinnu ljúki? Á orðum hans er ekki annað að skilja en að sú hótun hangi yfir, leyfi ég mér að segja, að gangi það ekki fyrir þingslit eða þingfrestun í vor þá verði löggjöfin einfaldlega rifin upp með rótum.

Ég skil einfaldlega ekki hvernig hv. þingmaður sér þessa vinnu fara fram og þess vegna spyr ég hann út í þetta. En það er þá gott að fá það fram að hv. þingmaður telji að hægt sé að færa á milli allra flokka þó að ég sé ekki sammála hv. þingmanni um það.