146. löggjafarþing — 40. fundur,  7. mars 2017.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

207. mál
[17:40]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Við deilum áhuga og áhyggjum af flutningskerfunum. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvernig hún sér því best komið í farveg hér á vettvangi þingsins, þ.e. að bregðast við ákalli Landsnets um að fá skýrari vilja stjórnvalda til að undirbyggja áætlanir sínar og til að bera saman sviðsmyndir og taka ákvarðanir um næstu skref.

Sú sem hér stendur er þeirrar skoðunar, eða var það sem þáverandi umhverfis- og auðlindaráðherra, að verkfæri rammaáætlunar væri vel til þess fallið að bera saman líka mismunandi kosti í flutningsleiðum og flutningskerfum. Ég vil biðja hv. þingmann um viðbrögð við þeirri vangaveltu.

Ég vil síðan spyrja hv. þingmann, vegna orða hv. þm. Teits Björns Einarssonar áðan, hvort málið hafi verið afgreitt með fyrirvara úr þingflokki Sjálfstæðisflokksins. Það skiptir mjög miklu máli upp á það hvernig búið verður um málið í nefndinni og hvernig verður um það fjallað þar; og kannski ekki síst vegna þess að hv. þingmaður lét að því liggja áðan að til álita kæmi að fara að hreyfa einstaka kosti í nefndinni og jafnvel þó að menn væru ósammála um það hvernig sú hreyfing ætti að vera. Ég spyr hvort hv. þingmaður sé þeirrar skoðunar að hægt sé að hreyfa eitthvað öðruvísi en það yrði þá gert í einhvers konar sátt.